Listaháskóli Íslands og Samson Properties ehf. í samstarfi við Arkitektafélags Íslands og menntamálaráðuneyti hafa boðið til samkeppni um hönnun Listaháskóla Íslands í miðborg Reykjavíkur. Markmið samkeppninnar er að fá fram tillögur sem verði grundvöllur að hönnun bygginga sem hýsa munu alla starfsemi skólans frá haustinu 2011, segir í fréttatilkynningu.

Þriðjungur húsnæðis verður opinn almenningi

Byggingar skulu svara vel þörfum Listaháskólans um fyrirkomulag og tengingu rýma eins og því er lýst í þarfagreiningu skólans. Um þriðjungur húsnæðisins verður opinn almenningi og er að því stefnt að skólinn glæði miðborgina auknu lífi með fjölbreytilegu menningarframlagi. Þá er lögð áhersla á metnaðarfullan arkitektúr og að húsnæðið falli vel að miðborgarumhverfinu, enda ljóst að skólinn verður mikilvægur hluti af ásýnd miðborgarinnar.

Samkeppnin er byggð á samkomulagi sem gert var um mitt ár 2007 milli Listaháskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytis, en á grundvelli þess hefur verið gerður samningur við fasteignafélagið Samson Properties ehf. um hönnun og byggingu skólans að samkeppninni lokinni.

Niðurstaða samkeppninnar liggi fyrir í lok júní

Hönnunarsamkeppnin er tveggja þrepa framkvæmdakeppni og er fyrra þrep öllum opið til þátttöku. Skilafrestur tillagna í fyrra þrepi er 17.mars 2008. Að loknu fyrra þrepi verða valdar allt að fimm tillögur til áframhaldandi þróunar í síðara þrepi. Verðlaun verða veitt að loknu síðara þrepi að heildarfjárhæð átta milljónir króna. Þá fá þátttakendur í síðara þrepi fá sérstaka greiðslu fyrir tillögur sínar.

Stefnt er að því að lokaniðurstaða samkeppninnar liggi fyrir í lok júní 2008. Í kjölfarið verður haldin sýning á tillögum beggja samkeppnisstiga.

Keppendur móti hugmyndir um framtíð eldri húsa

Keppnissvæðið tekur til hluta tveggja húsareita í miðbæ Reykjavíkur: eystri hluta Frakkastígsreits (nr. 1.172.1) og efri (syðri) hluta Hverfisgötureits (nr. 1.152.5). Lóðir og fasteignir innan svæðisins eru í eigu Samson Properties. Meginhluta starfsemi Listaháskóla Íslands er ætlaður staður á Frakkastígsreit en á Hverfisgötureit er svigrúm til stækkunar skólans.

Á þeim hluta Frakkastígsreits sem liggur að Laugavegi eru þrjú eldri hús: Laugavegur 41, 43 og 45. Húsafriðunarnefnd hefur samþykkt að leggja til friðun hússins að Laugavegi 41. Keppendum er falið að móta hugmyndir um framtíð húsanna með tilliti til aðlögunar bygginga að borgarmyndinni og þarfa skólans.

Formaður dómnefndar hönnunarsamkeppninnar er Hjálmar H. Ragnarsson rektor Listaháskóla Íslands. Aðrir í dómnefnd eru Anna Kristín Hjartardóttir og Jóhannes Þórðarson, tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands, Jón Ágúst Pétursson, tilnefndur af Samson Properties ehf. og Karitas H. Gunnarsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðuneyti.