Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, og Mosfellsbær auglýsa í sameiningu eftir þátttakendum í forvali fyrir lokaða samkeppni um gerð útilistaverks sem rísa á í maí 2008 á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefnið er 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi árið 2008, þar sem miðað er við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908. Ennfremur fagnaði Mosfellsbær 20 ára afmæli árið 2007 og ákvað bæjarstjórn af því tilefni standa að gerð útilistaverks í bænum. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir þátttakendum í forvali en að í kjölfarið fari fram lokuð samkeppni þriggja listamanna sem forvalsdómnefnd velur úr þátttakendum í forvali.  Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga og munu samtökin minnast 100 ára afmælisins með ýmsu móti á næsta ári. Tenging útilistaverksins við sögu Mosfellssveitar væri jafnframt ákaflega vel við hæfi. Forvalið er opin samkeppni þar sem öllum myndlistarmönnum er heimilt að senda inn tillögur. Í lokaðri samkeppni taka þátt þeir þrír listamenn sem forvalsdómnefnd velur. Í störfum forvalsdómnefndar og dómnefndar lokaðrar samkeppni verður gætt nafnleyndar listamanna. Haldin verður sýning á öllum tillögum úr lokaðri samkeppni í Bókasafni Mosfellsbæjar. Tillögur í forval skal afhenda þann 21. nóvember og eigi síðar en kl. 16.00 umræddan dag á skrifstofu Samorku, Suðurlandsbraut 48, en trúnaðarmaður tekur þá við tillögunum. Fyrirspurnir vegna forvals berist eigi síðar en 1. nóvember. Greidd verður þóknun, kr. 200.000, hverjum þeirra þriggja listamanna sem þátt munu taka í lokaðri samkeppni. Sá listamaður (tillaga) sem fyrir valinu verður fær auk þess kr. 800.000 í þóknun fyrir að fullvinna módel eða vinnuteikningar þannig að verkið verði tilbúið til fullvinnslu og við þá greiðslu hafa Samorka og Mosfellsbær tryggt sér rétt til að nýta vinningstillöguna til að gera eftir því útilistaverk. Loks verða listamanninum tryggð 2ja mánaða laun, sem samsvarar launum bæjarlistamanns Mosfellsbæjar, á meðan á vinnslu verksins stendur, til að fylgja eftir fullvinnslu verksins. Greitt verður að aflokinni uppsetningu verksins. Hér er samtals um að ræða kr. 316.000. Heildargreiðsla til listamanns, þegar útilistaverkið er smíðað og uppsett verða því kr. 1.316.000. Nánari upplýsingar um samkeppnisreglur má finna á vefsíðum Samorku (www.samorka.is) og Mosfellsbæjar ( www.mosfellsbaer.is ).