*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Innlent 2. janúar 2021 15:11

„Samkeppnin er gríðarlega hörð"

Forstjóri Sjóvár segir að samkeppni á tryggingamarkaði sé að breytast því nú sé meiri aðgreining á milli félaga.

Trausti Hafliðason
Hermann Björnsson segir að eftir lagabreytingu árið 2015 sé markaðurinn orðinn mjög kvikur.
Baldur Kristjánsson

Á Íslandi eru starfandi fjögur innlend tryggingafélög en það eru Sjóvá, VÍS, TM og Vörður.  

„Samkeppnin er gríðarlega hörð og mesta samkeppnin er um bifreiðatryggingar,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, sem hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fyrir nokkrum dögum.  

„Gott dæmi um virkni markaðarins er vöxtur Varðar,“ segir hann. „Á síðustu fimm árum hefur það félag, sem var tiltölulega lítið, vaxið töluvert og það hefði ekki gerst ef ekki væri virkur samkeppnismarkaður. Markaðurinn er orðinn mjög kvikur í dag og er það ekki síst vegna laga sem tóku gildi árið 2015. Gerðu lögin fólki kleift að segja upp vátryggingasamningi með mánaðarfyrirvara en áður var fólk bundið í tólf mánuði hjá sama félaginu. Sumir töldu að þessi breyting yrði félögunum erfið en hún hefur að mínu viti verið til góðs því félögin þurfa að vera á tánum, bæði til þess að halda sínum viðskiptavinum og ná í nýja, sem kannski eru ósáttir annars staðar. Þessi breyting var holl fyrir markaðinn.

Samkeppnin er samt að breytast að því leyti að það hefur sjaldan verið meiri aðgreining á milli félaganna en núna. Vörður er sem dæmi í eigu Arion banka og í nóvember samþykktu stjórnir Kviku banka, TM og Lykils fjármögnunar að sameina félögin.“

Tryggingafélög geta verið ákjósanlegur fjárfestingakostur fyrir banka. Við sameiningu þessara fyrirtækja er oft talað um bancassurance og er þá átt við hversu hátt hlutfall viðskiptavina bankans er með tryggingavörur og öfugt.

Spurður hvort Sjóvá hafi velt fyrir sér sameiningu við banka svarar Hermann: „Okkur ber skylda til að fylgjast með þeim tækifærum sem í boði eru. Hins vegar höfum við verið á góðri vegferð með því að næra grunnreksturinn. Ég sé enga ástæðu til að óttast að það breytist eitthvað þó ákveðnar breytingar séu að verða á þessum markaði með þessum sameiningum. Okkur líður mjög vel á þeim stað sem við erum í dag. Að því sögðu þá er ekki til neitt sem heitir að vera kominn mark þegar maður er í viðskiptum.“

Viðtalið við Hermann Björnsson má lesa í heild í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út.