Spænska veitingahúsarekstrarfélagið Grupo Zena er þriðja fyrirtækið sem hefur áhuga á að kaupa bresku veitingahúsakeðjuna La Tasca, samkvæmt heimildum The Times, en Robert Tchenguiz og Kaupþing eru á meðal þeirra sem eiga í yfirtökuviðræðum við eigendur fyrirtækisins.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Robert Tchenguiz, stjórnarmaður í Exista, hafi gengið til liðs við Kaupþing og að í sameiningu sé verið að vinna að formlegu kauptilboði. Kaupverðið er talið vera í kringum 100 milljónir punda, sem samsvarar tæpum 13 milljörðum króna.

Aðrir hugsanlegir kaupendur eru breska félagið Tragus, sem á og rekur veitingahúsakeðjurnar Café Rouge og Bella Italia, og er í eigu fjárfestingasjóðsins Blackston. Grupo Zena er í eigu fjárfestingsjóðsins CVC og markaðsaðilar telja að félagið hafi áhuga á að bæta við eignum til að setja inn í Grupo Zena áður en félagið verður selt áfram eða skráð á hlutabréfamarkað.