*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 26. september 2017 13:04

Samkeppnin eykst yfir Atlantshafið

Með nýju flugrekstrarleyfi Norwegian í Bandaríkjunum mun samkeppnin harðna á tengiflugi yfir hafið.

Ritstjórn

Sveinn Þórarinsson sérfræðingur í hlutabréfagreiningu á Hagfræðideild Landsbankans segir að nýtt flugrekstrarleyfi dótturfélags Norwegian á Bandaríkjamarkað muni auka samkeppni á flugi yfir Atlantshafið. Með leyfinu getur norska flugfélagið flogið beint til Bandaríkjanna frá Írlandi, þar sem dótturfélagið Norwegian UK, starfar að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Fleiri evrópsk félög hyggjast auka framboðið á flugi til Bandaríkjanna. Markaðurinn yfir hafið hefur verið harður og er að harðna,“ segir Sveinn. „Það hefur gengið hægt fyri Norwegian að fá flugleyfið, meðal annars vegna deilna við bandarísk verkalýðsfélög.“

Tengiflug yfirleitt nauðsyn

Sveinn segir að það hafi lengi verið vitað að félagið hefði mikil áform á Bandaríkjamarkaði, en flugmarkaðurinn virðist vera kaka sem fari stækkandi.

„Það má ekki gleyma því að Ísland og Keflavík eru mjög vel staðsett fyrir tengiflug,“ segir Sveinn, sem segir íslensku flugfélögin byggja á því að vera með tengipunkt hér á landi, enda þurfi yfirleitt tvö flug yfir hafið. „Það er erfitt að fullyrða hvort aukin samkeppni frá Norwegian þurfi að hafa neikvæð áhrif á íslensku félögin.“

Icelandair segist ekki vilja tjá sig um hvað önnur flugfélög aðhafast en Wow air bendir á að félagið muni frá og með næsta vori fljúga til 15 áfangastaða í Bandaríkjunum, en nú séu þeir 10. „Norwegian hefur flogið til Bandaríkjanna áður á öðru flugrekstrarleyfi sv við sjáum ekki að þetta hafi miklar breytingar í för með sér,“ segir í svari Wow air, sem segir innkomu félagsins ekki hafa áhrif á verð vegna þess hve samkeppnin sé mikil nú þegar.