*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 20. maí 2017 12:41

Samkeppnin harðnar

Að sögn sérfræðinga eru gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því að efla uppbygg­ingu gagnavera hér á landi.

Ásdís Auðunsdóttir
Aðsend mynd

Gagnaverauppbygg­ingu hefur verið lýst sem næsta stóra sóknartækifæri ís­lensks viðskipta­lífs og að sögn formanns Samtaka gagnavera á Íslandi (DCI), Jóhanns Þórs Jónssonar, sem og annarra sérfræðinga eru gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því að efla uppbygg­ingu gagnavera hér á landi. Ýmsar grunnforsendur eru til staðar sem gera það að verkum að Ísland er sérstaklega vel til þess fallið að hýsa gagnaver og landið ætti því að geta orðið öflugur aðili á alþjóðamark­aði og jafnvel miðstöð fyrir gagnaveraiðnað á Norðurlönd­unum. En sam­keppnin er hörð.

Nágrannaþjóð­ir okkar hafa einnig áttað sig á þeim miklu tækifærum sem felast í uppbyggingu gagnavera og hafa stjórnvöld í löndunum því mörg hver gengið langt í aðgerðum sínum til að liðka fyrir framgangi greinarinnar. Slíkt hefur meðal annars falið í sér þátt­töku hins opinbera í lagningu sæ­strengja, í innleiðingu stofnana sem hafa það að markmiði að laða að gagnaver og auðvelda komu þeirra til landanna og beina hvata til uppbyggingar gagnavera. Er það mat sérfræðinga að ef íslenskt samfélag vill laða að sér slíkar fjár­festingar er mikilvægt fyrir stjórn­völd að hlúa að innviðum sem lúta að greininni, svo sem með því að bæta samskiptatengingar Íslands við umheiminn auk þess að tryggja orkuöryggi til framtíðar. Stjórnvöld verði að gera sér grein fyrir þeim þjóðhagslega ávinningi sem af greininni gæti hlotist og bregðast við eigi Ísland að vera samkeppnis­ hæft til framtíðar. 

168% vöxtur á tveimur árum 

Í skýrslu sem Samtök iðnaðarins tóku saman og ber nafnið: Nauðsyn bættra fjarskiptatenginga og hagræn áhrif gagnavera kemur fram að all­ar spár sérfræðinga gera ráð fyrir miklum vexti gagnaveraiðnaðarins í Vestur ­Evrópu á næstu árum og þá sérstaklega á Norðurlöndunum. Þannig er til að mynda gert er ráð fyrir 60 nýjum stórum gagnaverum í Evrópu fyrir árið 2020 og frá 2015 til loka árs 2017 er spáð 168% vexti norræna gagnaveraiðnaðarins. 

Á Íslandi eru nú þegar nokk­ur gagnaver, m.a. á vegum Verne Global, Wintermute, Advania Data Centers og Borealis auk þess sem fyrirtæki á borð við Sensa, Voda­fone, Nýherji og Opin kerfi eru með gagnahýsingarþjónustur. Heildar­fjárfesting í þessum geira hér á landi hefur verið á bilinu 20-­25 milljarðar á undanförnum árum og heildarorkunotkun er nú að nálgast 50MW.

Jóhann Þór Jónsson, formaður DCI og forstöðumaður rekstrar­ sviðs Advania segir samtökin telja að öflug gagnaverauppbygging á Íslandi myndi hafa umtalsverð já­kvæð efnahagsleg áhrif í för með sér. „Ísland þarf að byggja undir frekari störf í tækniiðnaðinum og ein leið er sú að byggja upp árang­ ursríkan gagnaversiðnað. Iðnað sem ekki aðeins selur græna orku og nýtir hagstæð veðurskilyrði til kælingar heldur byggir einnig á vinnu í efstu lögum gagnaversiðn­aðarins þar sem íslensk þekking og hugvit skapar áhugaverðar aðstæð­ ur fyrir erlend stórfyrirtæki til að koma hingað með sínar þjónustur.“ Hann segir að menn séu nú þeg­ar að sjá dæmi um þetta, t.d. með samstarf  við mörg erlend stórfyr­irtæki og opinberar stofnanir sem útvisti til Íslands flóknu reikniverki sem kallar á mikla orku og ekki síst vinnu frá tæknimenntuðu fólki. Með þessu skapist hátæknistörf í þjónustu við erlenda aðila sem geta spunnið af sér enn stærri og áhuga­verðari verkefni í framtíðinni. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.