Þörf er á því að auka samkeppni á sviði meðhöndlunar úrgangs að mati höfunda skýrslunnar Competition in the Waste Management Sector – Preparing for a Circular Economy sem unnin var á vegum Norrænu samkeppniseftirlitanna. Samkeppniseftirlitið birti skýrsluna á vef sínum í dag en þar segir einnig að Norrænu samkeppniseftirlitin hafi grandskoðað stöðu samkeppni við meðhöndlun úrgangs á Norðurlöndunum.

Í skýrslunni eru lagðar til tilteknar úrbætur sem ætlað er að draga úr samkeppnishindrunum og skapa hagkvæmari markaði fyrir meðhöndlun úrgangs. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að með birtingu skýrslunnar vilji eftirlitið taka þátt í umræðu um hvernig hægt sé að nýta samkeppnishvata til aukinnar verðmætasköpunar í meðhöndlun úrgangs.

„Það er mat Samkeppniseftirlitsins að í dag sé samkeppni vannýtt við meðhöndlun úrgangs, sem leiðir til hærri kostnaðar, lakari umhverfisverndar og takmörkunar á nýsköpun. Í skýrslunni er m.a. að finna tilmæli um með hvaða hætti unnt er að bæta nýtingu úrgangs sem hráefnis og þar með ná markmiðum löggjafans um aukna umhverfisvernd.“

Hann segir einnig að í meðhöndlun úrgangs séu sveitarfélög og fyrirtæki mikilvægir þátttakendur, en hlutverk sveitarfélaga er að miklu leyti lögbundið.

„fjölþætt hlutverk sveitarfélaga á sviði meðhöndlunar úrgangs stundum til hagsmunaárekstra og óþarfa samkeppnishamla gagnvart einkareknum fyrirtækjum. Samkeppniseftirlitið hvetur öll sveitarfélög til að beita opinberum útboðum í ríkum mæli til þess að láta reyna á hvort markaðurinn bjóði upp á ódýrari og betri lausnir en nú er stuðst við. Mjög mikilvægt er þó að vandað sé til verka við útboð á þjónustunni en illa skipulögð útboð geta leitt til töluverðs kostnaðar fyrir íbúa sveitarfélaga. “

Eftirlitið segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að hægt sé að ná sparnaði sem nemur 10% til 47% sparnaði á sviði söfnunar úrgangs sé útboðum beitt.

„Þannig geta illa ígrundaðar fjárfestingar leitt til aukins kostnaðar fyrir íbúa sveitarfélaga. Framangreint á sérstaklega við í dag þegar sveitarfélög standa frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort fjárfesta skuli í nýjum lausnum, t.a.m. á sviði lífrænnar meðhöndlunar úrgangs og gasgerðar, eða útvista verkefnunum til einkafyrirtækja.“