Spurð hvað hún telji framundan í fjártækni almennt segir Ólöf Jónsdóttir, forstöðumaður fjártækni hjá Kviku og forstöðumaður Auðar, að samkeppnin eigi bara eftir að aukast en telur þó að mögulega vinni það með íslenskum bönkum að Ísland sé líklega ekki markaður sem tæknirisar leggi mikla áherslu á vegna smæðarinnar.

„Það sem vinnur að mörgu leyti með íslensku bönkunum er að tæknirisarnir eru líklega ekki að fara að hlaupa til og stofna reikninga í íslenskum krónum þar sem Ísland er einfaldlega svo lítið sem býr til aukavinnu.

Hins vegar tel ég að samkeppnin muni halda áfram að aukast. Sem dæmi er PSD 2 reglugerðin væntanleg sem mun gera fjártæknifyrirtækjum miklu auðveldara að bjóða upp á viðbótarþjónustu við banka og taka út ákveðna þjónustu þar og við sjáum tækifæri í því.

Það verður því minni alþjónusta og þess í stað mun fólk velja sér t.d. app sem því líkar best við, taka einhverja góða verðlagningu á einum stað auk þess sem það verður líklega mun meira um samanburðarþjónustur eins og t.d. Aurbjörg þar sem hægt er að bera saman vexti af lánum og innlánum. Neytandinn á eftir að verða miklu meira meðvitaður. Þú ferð ekki lengur í einn banka og ert svo alltaf þar.

Það sem við höfum séð í öðrum greinum eins og hótelum, leigubílum eða tónlist er að viðskiptin hafa færst yfir á stafrænt form þar sem það er neytandinn sem á endanum nýtur ábatans bæði í formi betri upplifunar og kjara. Þetta er eitthvað sem ég held við munum sjá í bankakerfinu í frekari mæli.

Þetta hefur í raun þegar átt sér stað í fjártækni erlendis þar sem hefur orðið til fjöldi af erlendum fjártæknibönkum sem eiga þó oft erfitt með að skila hagnaði þar sem þeir eru aðallega að sækja fram og sækja viðskiptavini. Tíminn á svo eftir að leiða í ljós hverjir eiga eftir að verða stærstir og líklega eiga eftir að verða til nýir bankarisar sem verða alþjóðlegir en líka staðbundnir aðilar þannig að hvert svæði muni eiga sína fjártæknilausn.“

Ólöf segir að markmið Kviku sé ekki að sækja eins marga viðskiptavini og hægt er heldur frekar að velja ákveðnar syllur þar sem tækifæri eru til staðar.

„Þess vegna er t.d. 250.000 króna lágmarksinnistæða á Auði. Við værum með fleiri notendur ef það væri ekki en hins vegar getum við ekki boðið upp á þessa vexti á lægri upphæðir þar sem það er fastur kostnaður sem fylgir hverjum reikningi sem er stofnaður. Við höfum stillt þessu þannig upp að þetta sé góður rekstur fyrir okkur sem skiptir máli til þess að geta haldið áfram að bjóða upp á góða þjónustu og góðan rekstur til frambúðar.

Nánar er rætt við Ólöfu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .