Byr-sparisjóður hefur ekki farið að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um upplýsingaskyldu og hefur eftirlitið því ákveðið að leggja á Byr sektir upp á eina milljón króna á dag þar til þær upplýsingar sem það hefur óskað eftir berast.

Samkeppniseftirlitið vinnur að athugun á samkeppnislegum áhrifum samruna Spron og Kaupþings. Við mat á stærð þess markaðar sem félögin starfa á taldi eftirlitið nauðsynlegt að afla upplýsinga frá fjölda fjármálafyrirtækja sem starfa á Íslandi.

Byr fékk m.a. í hendur spurningar í sextán liðum í tengslum við rannsóknina, en svörin voru afar ófullnægjandi að mati Samkeppniseftirlitsins og ítrekanir þar að lútandi skiluðu litlum árangri.

Er það mat eftirlitsins að Byr hafi „með ítrekuðu athafnaleysi sínu vanrækt ótvíræða lagaskyldu um upplýsingaskyldu,” og telji það óhjákvæmilegt annað en að beita heimild í samkeppnislögum um álagningu dagsekta vegna umræddrar vanrækslu.