Samkeppniseftirlitið hefur verið dæmt til að endurgreiða Icelandair stjórnvaldssekt að upphæð 130 milljónir króna.

Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag en Samkeppniseftirlitið var þó sýknað af kröfu Icelandair að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 22. júní 2007 þar sem Icelandair er sakað um brot á samkeppnislögum.

Forsaga málsins er sú að í febrúar árið 2004 kvartaði Iceland Express til Samkeppnisstofnunar og bar Icelandair þeim sökum að hafa brotið samkeppnislög vegna verðlagninga á svokölluðum Netsmellum til Kaupmannahafnar og Lundúna.

Icelandair hefur ávallt neitað að hafa lækkað verðin umfram það sem óeðlilegt má telja en í maí 2006 úrskurðaði Samkeppniseftirlitið (áður Samkeppnisstofnun) að Icelandair hefði brotið gegn ákvæðum samkeppnislega með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína til að lækka flugfargjöld og var félaginu gert að greiða sekt að upphæð 190 milljónir króna.  Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina síðar niður í 130 milljónir króna.

Icelandair skaut úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómsstóla í desember árið 2007 og hélt því fram að áfrýjunarnefndin hefði farið langt út fyrir heimild sína með því að víkja í grundvallaratriðum frá efnislegum rökstuðningi Samkeppniseftirlitsins fyrir meintri ólögmætri verðlagningu Icelandair.

Dómurinn tekur undir rök Samkeppniseftirlitsins að verðlagning á ódýrustu flugfargjöldum Icelandair til Kaupmannahafnar á fyrrnefndu tímabili hafi leitt til skaðlegrar undirverðlagningar sem hafi verið til þess fallin að draga úr samkeppni frá Iceland Express. Hins vegar hafnar dómurinn því að hið sama eigi við um verðlagningu flugfargjalda til Lundúna.

Dómurinn telur þó að brot Icelandair sé ekki eins alvarlegt og víðtækt og niðurstaða áfrýjunarnefndar byggir á jafnframt því sem dómurinn telur að áfrýjunarnefndin hafi ofmetið skaðann sem kann að hafa hlotist vegna meintra brota.

„Jafnframt telur dómurinn [...] að tæplega megi fullyrða að brot [Icelandair] hafi staðið í langan tíma og að mati dómsins var ekki um sértæka aðgerð að þessu leyti að ræða af hálfu stefnanda,“ segir í dómnum.

„Framangreind atriði draga svo mjög úr alvarleika brots [Icelandair], miðað við þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar [...] að dómurinn telur að fallast beri á varakröfu [Icelandair] um að fella beri úr gildi ákvæði úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála [...] um að [Icelandair] skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 130.000.000 króna.“

Þá var hvor aðili um sig dæmdur til að greiða sinn kostnað af málinu. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins greiddi Icelandair sektina þegar hún var birt en mun nú fá hana endurgreidda, þó án vaxta.