Samkeppniseftirlitið mun fylgjast náið með opinberri umfjöllun fyrirtækja og samtaka fyrirtækja um hækkun á vöruverði á næstunni. Á vef stofnunarinnar kemur fram að mikil umfjöllun hafi verið um hækkanir á verði á ýmsum tegundum af vöru og þjónustu.

„Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið árétta að umfjöllun og upplýsingaskipti milli keppinauta um verð, væntingar um verðlag eða fyrirætlanir um breytingar á verði, geta raskað samkeppni og skaðað hagsmuni neytenda. Hið sama getur átt við um umfjöllun á opinberum vettvangi ef fyrirsvarsmenn fyrirtækja gefa t.d. nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaðar verðhækkanir eða lýsa yfir vilja til verðhækkana. Þannig getur slík umfjöllun verið til þess fallin að hvetja keppinauta á markaði til verðhækkana og stuðlað að ólögmætu samráði,“ segir á vef stofnunarinnar.

„Sömuleiðis getur umfjöllun af þessu tagi á vettvangi samtaka fyrirtækja varðað við samkeppnislög, sem banna samtökum fyrirtækja að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Í banni samkeppnislaga við samráði felst að fyrirtæki ákveði að öllu leyti sjálfstætt hvernig þau hegði sér á markaði og hvernig þau verðleggi vörur sínar og þjónustu. Mega samtök fyrirtækja með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna með því t.d. að hvetja til eða réttlæta verðhækkanir.

Í þessu ljósi telur Samkeppniseftirlitið afar mikilvægt að forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka fyrirtækja gæti þess sérstaklega að opinber umfjöllun af þeirra hálfu feli ekki í sér beina eða óbeina hvatningu til verðhækkana á viðkomandi markaði. Slík háttsemi er til þess fallin að valda neytendum og atvinnulífinu tjóni.“