Samkeppniseftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um breytingar á búvörulögum. Með frumvarpinu yrði lögfest refsifyrirkomulag gagnvart tilteknum rekstraraðilum sem hafa hug á að framleiða mjólkurvörur fyrir íslenska neytendur. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins sem send hefur verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kemur fram að á undanförnum árum hefur verið fjallað ítarlega um samkeppnisaðstæður í mjólkurðiðnaði hérlendis. Þar hefur tilmælum ítrekað verið beint til landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að auka virka samkeppni á markaði fyrir framleiðslu og sölu á mjólkurvörum.

Segir í umsögninni að allt frá birtingu fyrsta álitsins sem Samkeppniseftirlitið vitnar í, og er frá árinu 2002, hefur í engu verið farið eftir þessum tilmælum. Þvert á móti hefur verið gengið lengra í þá átt að takmarka samkeppni. Frumvarpið nú gangi enn lengra í að takmarka samkeppni, og festir þannig enn frekar í sessi samkeppnishömlur, neytendum og bændum til tjóns.

110 kr. fjársekt fyrir lítra

Samkeppniseftirlitið vekur sérstaka athygli á 2. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að fjársekt verði lögð á mjólkursamlag ef það tekur við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur kvóta. Sektin nemur 110 kr. fyrir hvern lítra samkvæmt núverandi frumvarpi.

Samkeppniseftirlitið hefur áður gert athugasemdir við efnislega sambærilegt lagafrumvarp sem stóð til að leggja fyrir þingið. Minnisblað þess efnis er dagsett 26. febrúar 2009. Eftirlitið segir að með lagafrumvarpsgreininni er verið að festa í sessi þá skyldu að mjólk sem framleidd er umfram greiðslumark megi almennt ekki markaðssetja og selja íslenskum neytendum.

„Samkeppniseftirlitið bendir á að slíkt fyrirkomulag er eðli málsins samkvæmt til þess fallið að draga úr framboði á innanlandsmarkaði og stuðla þar með að verðhækkunum og vinna gegn verðlækkunum, til skaða fyrir neytendur. Þá kemur frumvarpsgreinin augljóslega í veg fyrir frelsi í atvinnurekstri, kemur í veg fyrir að nýir keppinautar komi inn á markaðinn og stuðlar þannig að og festir í sessi fákeppni á markaði, takmarkar nýsköpun og vöruþróun og vinnur gegn hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Þá verða mjólkurframleiðendur, þ.e. bændur, einnig fyrir skaða þar sem þeim nýtast ekki kostir samkeppninnar á milli afurðastöðva við öflun hrámjólkur til að fá hærra verð fyrir sínar afurðir.“

Hefur mörg einkenni samráðshrings

Að mati Samkeppniseftirlitsins hefur íslenskur mjólkurmarkaður mörg einkenni samráðshrings. Á heilbrigðum markaði brýtur það í bága við 10. grein samkeppnislaga.

„Með hugtakinu [samráðshringur] er átt við fyrirtæki sem ættu að vera að keppa sín á milli á markaði fyrir vöru eða þjónustu, en hafa gert með sér samkomulag um að draga úr framleiðsla eða samræma verð. Tilgangurinn er þannig að auka hagnað viðkomandi samráðsfyrirtækja á kostnað hagsmuna neytenda og þjóðfélagsins í heild. Í 10. grein samkeppnislaga er lagt bann við slíkri háttsemi og varðar brot háum stjórnvaldssektum og fangelsisrefsingu,“ segir í umsögninni.

Samkeppniseftirlitið segir að eitt af einkennum slíkra samráðshringja sé að þeir leiti leiða til að tryggja að aðilar samráðsins fari að gerðum samningum um t.d. verðhækkanir eða takmarkanir á framleiðslu. Auk þess sé komið á kerfi þar sem aðilum samráðs er refsað ef þeir brjóti gegn samningum. Þannig hagnist samráðshringurinn á kostnað almennings.

„Hér háttar hins vegar svo til að löggjafinn sjálfur hefur stigið fram og undanþegið mjólkurvörumarkað mikilvægum ákvæðum samkeppnislaga, í því skyni að fyrirtæki á markaðnum geti haft með sér samráð neytendum og bændum til tjóns.“ Eftirlitið segir að aðkoma Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) styðji ennfremur samlíkinguna við samráðshringi.