Samkeppniseftirlitið telur lagaskilyrði  til íhlutunar á kröfu Félags íslenskra stórkaupmanna um aðskilnað hjá Bóksölu stúdenta, á milli annars vegar sölu á almennum markaði og hins vegur sölu til námsmanna, ekki vera fyrir hendi.

Segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að það muni ekki hafa frekari afskipti af málinu.

Í ákvörðuninni segir að Félag íslenskra stórkaupmanna, hafi óskað eftir því árið 2006 að Samkeppniseftirlitið skoðaði hvort rekstur Bóksölu stúdenta, sem rekin er að Félagsstofnun stúdenta við HÍ, stæðist ákvæði samkeppnislaga.

Segir m.a. að Bóksala stúdenta starfi í skjóli opinberrar verndar í skilningi 14. gr. samkeppnislaga. Þar með sé Bóksalan undanþegin greiðslu tekjuskatts og útsvars.

Sérstök lagaákvæði gilda um Félagsstofnun stúdenta og hefur hún ákveðnar skyldur á herðum sér.

„Þó að í skattleysi fyrirtækis á samkeppnismarkaði felist eftir atvikum samkeppnishindrun þá er að mati Samkeppniseftirlitsins, bæði með tilliti til þeirra kvaða sem á Bóksölu stúdenta hvíla og þess takmarkaða umfangs samkeppnisrekstrar fyrirtækisins, ekki að svo stöddu ástæða til að beita heimild 18. gr. [samkeppnislaga] og beina áliti til ráðherra vegna ákvæðis 5. gr. laga nr. 33/1968 um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands.“

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins málesa í heild hér.