Í morgun komu fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í starfsstöðvar VALITOR í Reykjavík og framkvæmdu húsleit vegna kvörtunar sem eftirlitinu hafði borist frá keppinautnum Borgun  um meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VALITOR en þar kemur jafnframt fram að félagið telji kæru Borgunar ekki eiga við rök að styðjast enda hafi fyrirtækið fylgt í hvívetna fyrirmælum laga og reglna um hegðun á markaði.

Fram kemur að húsleitin sé liður í meðferð þessa máls og hafi VALITOR veitt Samkeppniseftirlitinu greiðan aðgang að umbeðnum gögnum.