Í gærkvöldi tilkynnti Samkeppniseftirlitið Dagsbrún að samruni Senu og Dagsbrúnar hefði verið ógiltur. Dagsbrún mun skjóta ákvörðuninni til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Samningur um kaup Dagsbrúnar á Senu er háður þeim fyrirvara að við ógildingu samrunans gangi kaupin til baka.

?Heildarkaupverð Senu var um 3,6 milljarðar króna en greitt var fyrir félagið með 1.600 milljónum króna í reiðufé auk hlutabréfa í Dagsbrún að nafnvirði 266,7 milljónir króna. Kaupverð Senu var tengt gengi hlutabréfa í Dagsbrún þar sem aukagreiðsla fellur til verði gengi bréfa Dagsbrúnar undir 7,5 í lok árs 2006. Aukagreiðslan nemur 400 milljónum króna verði gengi Dagsbrúnar 6 eða lægra en lækkar hlutfallslega frá genginu 6 og upp í 7,5," segir greiningardeild Glitnis.

Greiningardeild Glitnis telur að ef úrskurðinum verði ekki haggað muni það hafi neikvæð áhrif á rekstur Dagsbrúnar, ?þar sem uppbygging rekstrar samstæðunnar miðaðist við að Sena væri hluti samstæðunnar. Dagsbrún leggur áherslu á miðlun efnis umfram tækniþróun og voru kaupin á Senu liður í eflingu þeirrar stefnu," segir greiningardeildin.

Dagsbrún telur forsendur rangar
Í tilkynningunni segir að Dagsbrún telji að forsendur ákvörðunarinnar séu rangar í meginatriðum. Dagsbrún vill sérstaklega benda á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Hafnar Dagsbrún því að Stöð 2 starfi á sérskilgreindum áskriftarsjónvarpsmarkaði og fari með 95 til 100% markaðshlutdeild á þeim markaði og sé ekki í samkeppni við RÚV og Skjá einn. Staðreyndin er sú að Ríkissjónvarpið er áskriftarsjónvarp með nauðungaráskrift. Öll dagskráruppbygging og tekjusamsetning RÚV og Stöðvar 2 er áþekk. Þá er Stöð 2 í harðri samkeppni við RÚV um efni, auglýsingar og starfsfólk.

Í öðru lagi: Er því hafnað að starfsemi Senu annars vegar og Dagsbrúnar hins vegar skarist með þeim hætti í samkeppnislegu tilliti að réttlætanlegt hafi verið að ógilda samrunann. Að mati Dagsbrúnar hefði verið nægjanlegt að setja skilyrði fyrir samrunanum, eins og Dagsbrún gerði tillögu um við Samkeppniseftirlitið.

Í þriðja lagi: Hafnar Dagsbrún því alfarið að Baugur Group hf. fari með yfirráð yfir Dagsbrún hf. Dagsbrún hf. er sjálfstæður lögaðili, sem er skráður í Kauphöll Íslands með á annað þúsund hluthafa. Eignarhlutur Baugs í Dagsbrún hefur hingað til ekki kallað á neinar aðgerðir þar til bærra yfirvalda.

?Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nú stangast á við ákvörðun Samkeppnisráðs frá árinu 2000 um að Stöð 2 og RÚV keppi á sama markaði. Að baki þessari nýju niðurstöðu liggur að mati Dagsbrúnar engin sjálfstæð rannsókn á markaðnum, sem skýrir þessa breyttu afstöðu enda hefur ekkert breyst í rekstrarfyrirkomulagi RÚV og Stöðvar 2 frá þessum tíma," segir í tilkynningunni