Samkeppniseftirlitið hefur hafnað beiðni Neytendasamtakanna um að það rannsaki verðhækkanir á matvörumarkaði og ástæður þeirra, en samtökin báru fram slíka ósk í gær.

Í svari Samkeppniseftirlits til samtakanna er bent á að það fari ekki með verðlagseftirlit og fylgist því ekki með verðþróun eða ástæðum hennar. Í erindi samtakanna séu ekki færð fyrir því rök að umræddar hækkanir stafi af samkeppnishindrunum og því gefi það ekki tilefni til frekara viðbragða, enda hlutverk Samkeppniseftirlits að framfylgja boðum og bönnum samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið vekur hins vegar athygli á að það taki á móti öllum ábendingum sem að gagni kunna að koma við mat á hvort að umræddar verðhækkanir á matvörumarkaði megi að einhverju leyti rekja til brota á samkeppnislögum. Hvetur stofnunin bæði fyrirtæki og einstaklinga sem starfa við framleiðslu, dreifingu eða sölu á matvörum til að senda ábendingar um hugsanleg brot.