Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt yfirtöku eignarhaldsfélagsins Vestia ehf. á Teymi hf.  Eignarhaldsfélagið Vestia er að fullu í eigu NBI hf. sem er viðskiptabanki í eigu íslenska ríkisins.

Í kjölfar nauðasamninganna eignaðist Vestia 57% hlutafjár í Teymi en næst stærsti hluthafinn er Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. með tæplega 8% hlut og það sem eftir stendur er í eigu annarra kröfuhafa.

Fram kemur í samrunaskrá að NBI hafi verið stærsti kröfuhafi Teymissamstæðunnar og að samruninn sé liður í fullnustu þessara krafna NBI á hendur Teymi. Sagt er að til standi að selja eignarhlutinn í Teymi eins fljótt og hægt er með hliðsjón af ástandi fjármálamarkaða.

Samkeppniseftirlitið telur að með framangreindu hafi NBI/Vestia náð yfirráðum yfir Teymi og um sé að ræða samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga.

Hefur áhrif á fjarskiptarekstur

Teymi er eignarhaldsfélag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Eignarhaldsfélagið á átta dótturfélög og eitt dótturdótturfélag skv. samrunaskrá. Dótturfélögin eru: · Og fjarskipti ehf. · Skýrr ehf. · Kögun ehf. · Landsteinar Strengur ehf. · Eskill ehf. · Hugur/Ax ehf. · EJS ehf. · IP-fjarskipti ehf. (Tal) Þá er dótturdótturfélagið P/F Kall í Færeyjum í eigu Og fjarskipta.

Ákvörun samkeppniseftirlitsins er einkum athyglisverð í ljósi þess að Og fjarskipti og Tal starfa á fjarskiptamarkaðnum. Eins og fram kemur í fyrri úrlausnum samkeppnisyfirvalda á því sviði er þeim markaði skipt upp í ýmsa undirmarkaði, t.d. markað fyrir talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og Internetþjónustu, sbr. t.d. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða nr. 2/2009 Meint brot Símans hf. með tilboði í 3G netlykil og áskrift. Landfræðilegi markaðurinn telst að öllu jöfnu Ísland.

Það er niðurstaða eftirlitsins að NBI/Vestia og Teymi séu ekki keppinautar né er um að ræða lóðréttan samruna milli þessara fyrirtækja. Því er ekki um það að ræða að starfsemi þessara fyrirtækja skarist með beinum hætti. Þá fær

Í máli þessu liggur fyrir að Teymi stóð frammi fyrir alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum. Án aðgerða hefði það leitt til gjaldþrots, sbr. upplýsingar sem fram koma í samrunatilkynningu. Þess í stað var gerður nauðsamningur og í honum felst að lánardrottnar telja hag sínum best borgið með því að Teymi og tengd félög starfi áfram svo unnt sé að selja þau síðar.