Samkeppniseftirlitið var á fimmtudaginn sýknað af kröfum Mjólkursamsölunnar (MS) og tengdra aðila um að forstjóra eftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, og öðrum starfsmönnum yrði skylt að víkja við rannsókn á ætluðum brotum MS gegn samkeppnislögum. Brot MS eru meðal annars talin felast í skaðlegri undirverðlagningu gagnvart keppinautum.

MS taldi að með réttu mætti draga óhlutdrægni forstjóra Samkeppniseftirlitsins í efa vegna ummæla sem hann lét falla á ýmsum vettvöngum. Í dómi Héraðsdóms segir meðal annars eftirfarandi:

„Á málþingi Háskólans í Reykjavík 5. júní 2007, hafi forstjóri stefnda, Páll Gunnar Pálsson, látið í ljós þá skoðun sína að samkeppnisleg mismunun væri í mjólkuriðnaðinum og nefndi þar sérstaklega mál eins stefnenda, Osta- og smjörsölunnar og Mjólku ehf., sbr. frétt í Morgunblaðinu 6. júní 2007. Þessi ummæli hafi forstjórinn látið falla meðan húsleit hafi staðið yfir hjá stefnendum. Áður hafi forstjóri stefnda getið þess í blaðaviðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu hinn 18. október 2006 að honum „sviði“ vegna ákvæða búvörulaga og að samruni fyrirtækja í mjólkuriðnaði gæti leitt til hærra verðs. Enn fremur hafi forstjóri stefnda lýst þeirri skoðun sinni í viðtali í Blaðinu hinn 7. júní 2007 „[...] að skaðinn [væri] að einhverju leyti skeður“ og hafi hann þá átt við þá samruna sem orðið hafa hjá afurðastöðvum í mjólkuriðnaði.„

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.