Ljóst er að mati Samkeppniseftirlitsins að mikil fákeppni ríkir á  markaði fyrir framleiðslu og sölu á fóðri á Íslandi og beinir stofnunin þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir því að afnema tolla á fóðurblöndum. Gangi tollurinn gegn markmiðum samkeppnislaga.

„Samkeppniseftirlitið fær ekki séð að tilgangur tollheimtunnar sé annar en að vernda innlenda fóðurframleiðendur. Slíkt fyrirkomulag er í andstöðu við tilgang og markmið samkeppnislaga enda vinnur það gegn innkomu nýrra keppinauta sem áhuga hefðu á að selja tilbúnar fóðurblöndur á innlendum fóðurmarkaði,” segir í áliti eftirlitsins.

Kveðst það telja umrædda fóðurtolla vernda fóðurframleiðendur hérlendis og viðhalda samkeppnishamlandi fákeppni á fóðurmarkaði. Tollarnir skaði þannig bæði hagsmuni bænda og neytenda. Vart þurfi að fjölyrða um að afnám tollsins myndi stuðla að aukinni samkeppni á fóðurmarkaði, bændum og neytendum til hagsbóta.

„Í því skyni að stuðla að lækkun framleiðslukostaðar bænda og þar með að lægra vöruverði neytendum til hagsbóta, sem og að vinna gegn þeirri fákeppni sem ríkir á íslenskum fóðurmaraði, telur Samkeppniseftirlitið afar brýnt að afnema tolla á fullbúnar fóðurblöndur. Í ljósi núverandi aðstæðna á fóðurmarkaði er afar mikilvægt að til þessarar aðgerðar verði gripið sem allra fyrst,” segir í álitinu.

Vinnur gegn samkeppni

Um árabil hafa einungis verið tvö fyrirtæki á Íslandi sem framleiða og selja fóður. Með innflutningi á fóðurblöndum er unnt að veita innlendum framleiðendum samkeppnislegt aðhald að mati eftirlitsins. Samkvæmt reglugerð er hins vegar lagður tollur á innfluttar fóðurblöndur, 3,90 kr. á hvert kg. Telur eftirlitið tollinn vinna gegn innkomu nýrra keppinauta sem áhuga hefðu á að selja tilbúnar fóðurblöndur á innlendum fóðurmarkaði.