Samkeppniseftirlitið hefur beint þeim tilmælum til samgönguráðherra að beita sér fyrir því að gæta jafnræðis milli flugfélaga við veitingu ríkisstyrkja til flugsamgangna, í þeim tilgangi að greiða fyrir mögulegri samkeppni á viðkomandi mörkuðum.

Forsaga málsins er sú að þegar Landsflug hf. hætti áætlunarflugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur haustið 2006 fól samgönguráðherra Vegagerðinni að semja við Flugfélag Íslands um að halda úti áæltunarflugi á flugleiðinni, í samningi sem gilda átti í a.m.k. 10 mánuði. Flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur er ríkisstyrkt.

Ákvörðun um veitingu styrksins fór þannig fram að rætt var við valda aðila. Ekkert samband var haft við Flugfélag Vestmannaeyja þrátt fyrir að félagið hafi á þessum tíma verið sá aðili sem flutti flesta farþega í flugi til Vestmannaeyja.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur fram að það telji ekki málefnalegt eða í samræmi við góða samkeppnishætti að leita ekki til Flugfélags Vestmannaeyja þegar Vegagerðin ákvað að gera samning til skamms tíma um ríkisstyrkt flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að Vegagerðinni hafi borið að gefa Flugfélagi Vestmannaeyja tækifæri til að gera tilboð í hið ríkisstyrkta flug ásamt þeim sem fengu að gera tilboð.