Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að veita stóru viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi, Landsbanka og Glitni tímabundna undanþágu frá samkeppnislögum. Það er gert til að bankarnir geti veitt 500 milljónum krónum hver í Frumtak, samlagssjóð Nýsköpunarsjóðs, sem stæði að áhættufjárfestingum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Þetta kemur fram í frétt á síðu Samkeppniseftirlitsins.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafði heimild til stofna samlagssjóð um áðurnefndan tilgang og fá inn fjárfesta með viðbótarframlag upp á allt að 1.500 milljónir, enda næmi eignarhlutur þeirra 50%. Nýsköpunarsjóður leitaði meðal annars til allra viðskiptabankanna með þetta erindi og ákvað hver þeirra að veita hálfum milljarði í verkefnið. Vegna þessa samstarfsverkefnis sóttu viðskiptabankarnir um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins frá bannákvæðum samkeppnislaga við samstarfi keppinauta.

Eftirlitið taldi í ákvörðun sinni að samstarfið raskaði samkeppni. Einnig var tekið fram að íslenskur bankamarkaður væri fákeppnismarkaður þar sem bankar og sparisjóðir starfa að meginstefnu á sömu mörkuðum og njóta yfirburðastöðu. Þó var ákveðið að veita undanþágu vegna samstarfs um þennan sjóð, þó með skilyrðum. „Með þeim skilyrðum er meðal annars ætlað að girða fyrir að af samvinnu viðskiptabankanna í gegnum Frumtak leiði frekara samráð milli viðskiptabankanna sem falist getur meðal annars í markaðsskiptingu eða því að skuldbinda þá aðila, sem Frumtak fjárfestir í, um frekari viðskipti eða aðrar viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna," segir í frétt Samkeppniseftirlitsins.