Ef Kaffitár tekur við gögnum frá Isavia kann það að brjóta lög. Þetta segir Samkeppniseftirlitið í bréfi til lögmanns Kaffitárs, en samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur á Kaffitár rétt á að fá afhent útboðsgögn um aðstöðu á Leifsstöð. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Brot á samkeppnislögum

Boðað hefur verið til fyrirtöku á morgun hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fyrir liggur krafa að aðför að gögnum Isavia.

Í bréfinu kemur fram að Isavia hafi 25.júní síðastliðinn sent Samkeppnisstofnun erindi og óskað atbeina hennar til að „hindra, eins og kostur er, að samkeppnisröskun eða eftir atvikum brot á samkeppnislögum myndi eiga sér stað með afhendingu trúnaðargagna til Kaffitárs ehf. í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur.“

Er vísað til þess í bréfinu að í gögnunum sem Kaffitár vill fá aðgang að séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og móttaka þeirra feli í sér brot á 10. grein samkeppnislaga, eða að „háttsemin gæti að minnsta kosti raskað samkeppni.“ Vekur Samkeppniseftirlitið athygli á að lögin banni ólögmæta upplýsingagjöf eða upplýsingasamskipti milli keppinauta.

Allar leiðir reyndar til að hindra aðgang

Forstjóri Kaffitárs, Aðalheiður Héðinsdóttir segist mjög undrandi á tilmælum Samkeppniseftirlitsins.

„...við eigum rétt á því að fá þessi gögn afhent. Það virðist hins vegar eiga að reyna allar leiðir til að koma í veg fyrir það og nú síðast blandar Samkeppniseftirlitið sér í málið í kjölfar þess að Isavia kallar eftir því,“ segir Aðalheiður í viðtali við Viðskiptamoggann.“