Sterkar vísbendingar eru um að breytingar á forverðmerkingum séu neytendum til hagsbóta og gerjunar á matvörumarkaði. Verðmunur milli verslana bendir til þess að samkeppni sé, en slíkur verðmunur ekki verið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. „Þá hafa breytingarnar leitt til þess neytendur eru síður blekktir með afsláttum frá verði sem í raun aldrei stóð til að bjóða þeim, auk þess sem miklu fleiri vörur eru nú staðlaðar að þyngd sem auðveldar verslunum að verðmerkja vörurnar,“ segir eftirlitið.

Samkeppniseftirlitið bannaði forverðmerkingar kjötvara fyrr á þessu ári, eftir að rannsókn leiddi í ljós samkeppnishamlandi samvinnu aðila á markaði við Bónus.

Í fréttatilkynningunni er vísað í frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna. „Á heimasíðu  Neytendasamtakanna var í gær birt umfjöllun um verðhækkanir á kjöti og vísað til nýlegrar verðkönnunar ASÍ. Í frétt Neytendasamtakanna er velt upp þeirri spurningu hvort bann við forverðmerkingum (þ.e. verðmerkingar kjötvinnslufyrirtækja fyrir verslanir) hafi leitt til hærra vöruverðs. Óásættanlegt sé ef milliliðir hafi nýtt sér þessa breytingu til að hækka álagningu sína. Í fjölmiðlum hefur Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, látið að því liggja að til greina komi að taka forverðmerkingar upp að nýju.“

Eftirlitið segir að með afnámi forverðmerkinga hafi skapast forsendur fyrir hagræðingu. Það eigi að skila sér í lægra verði. „Má í því sambandi nefna minna birgðahald sem hefur í för með sér hagræðingu. Þá telur eftirlitið að við það að birgjar og matvöruverslanir hætti umfangsmiklu samráði og samvinnu um smásöluverð, afslætti frá því verði og framlegð verslana, ætti að nást fram mikill sparnaður á kostnaði aðila við kjötviðskipti. Framangreint á að gera meira en að vega upp á móti hugsanlegum stofnkostnaði verslana við nýtt fyrirkomulag.“