Á fundi Alþjóðabankans (World Bank) í Washington þann 23. júní síðastliðinn var Samkeppniseftirlitinu veitt viðurkenning fyrir framlag sitt til endurreisnar íslenska hagkerfisins í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og beitingu samkeppnislaga á krepputímum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Þar segir að viðurkenningin sé liður í að styðja við framkvæmd samkeppnislaga víða um heim, en um era ð ræða samstarfsverkefni Alþjóðabankans og Alþjóðasamtaka samkeppnisyfirvalda (International Competition Network) með þátttöku Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Taldi dómnefnd að viðbrögð Samkeppniseftirlitsins eftir hrunið 2008, að leita til aðila markaðarins, fræðimenn og opinbera aðila til að stuðla að opnum markaða og koma í veg fyrir eða minnka aðgangshindranir, hafi verið til fyrirmyndar. Það sé virðingavert í ljósi þess að samkeppnislög hafa oft verið lögð til hliðar á krepputímum, sem dýpkar og lengir kreppuástand.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði:

Viðurkenningin er Samkeppniseftirlitinu hvatning til að gera enn betur. Á það bæði um leiðsagnarhlutverk eftirlitsins og festu í framkvæmd samkeppnislaga.