Töluverð umræða hefur farið fram um frumvarp um Samkeppniseftirlitið sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur lagt fram. og hefur Viðskiptablaðið fjallað ítarlega um málið, til að mynda hvað Páll Gunnar Pálsson forstjóri stofnunarinnar hefur um minnkandi valdheimildir hennar að segja

Einnig hafa ummæli Gylfa Magnússonar formanns bankaráðs Seðlabankans leitt til hnútaskeytinga milli Halldórs Benjamín Þorbergssonar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Gylfa sem bakkaði hvergi en Halldór sagði samtökin hafa viljað ganga lengra en lagabreytingin nú.

Síðan hafa bæð i Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Ólafur Stephenssen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda lagt orð í belg.

„Ég gerði ráð fyrir því að umræðan færi hratt af stað og afnám heimilda stofnunarinnar yrði umdeild. Markmiðið er að endurmeta þær breytingar sem gerðar voru eftir hrun og stuðla að frekari skilvirkni innan Samkeppniseftirlitsins og létta á umfangi verkefna svo hún geti betur einbeitt sér að þeim mikilvægu þáttum sem þarf að sinna,“ segir Þórdís Kolbrún.

Helstu breytingarnar eru hækkun veltuviðmiða fyrirtækja sem hyggjast sameinast sem stofnunin skoði, afnám áfrýjunarréttar stofnunarinnar til dómstóla eftir úrskurð æðra stjórnvalds og afnám heimildar til að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum auk þess sem ábyrgð á því hvort samstarf fyrirtækja uppfylli skilyrði samkeppnislaga er fært til þeirra sjálfra líkt og gert er í Evrópulöndum.

„Ég er að leggja til að lagaumgjörð stofnunarinnar verði færð í fyrra horf en eftirlitsstofnanir um samkeppnismál í löndunum í kringum okkur hafa ekki heimild til áfrýjunar enda samræmist það ekki meginreglu stjórnsýsluréttar. Einnig tel ég heimildir eftirlitsins nægar þó að heimildin til skipta upp fyrirtækjum verði ekki til staðar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .