Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins komu á skrifstofur Ölgerðarinnar í morgun og framvísuðu heimild til þess að leggja hald á gögn hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram á vef DV . Haft er eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, að starfsmenn eftirlitsins hafi lagt hald á gögn og afritað tölvupósta. „Við vitum ekkert í sjálfu sér,“ segir Andri Þór við DV.

Þá kemur fram að heimsóknin hafi tekið stuttan tíma og ekkert var látið uppi um ástæður hennar. Andri Þór segir að heimsóknin hafi ekki komið starfsfólki Ölgerðarinnar í opna skjöldu, eftirlitið sé einfaldlega að vinna sína vinnu. Hann segir að starfsmenn hafi aðstoðað eftirlitið eins og hægt er.