Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfestir að eftirlitið hafi áhyggjur af samþjöppuðu eignarhaldi keppinauta á hlutabréfamarkaði. Í síðasta Viðskiptablaði var fjallað um þá staðreynd að sömu hluthafar eiga 57% í bæði Símanum og Vodafone og ástandið er svipað á tryggingamarkaði og fasteignamarkaði .

Fyrr í sumar hélt Samkeppniseftirlitið fund með fjármálaráðherra og ýmsum hagsmunaaðilum og var því sjónarmiði komið fram að full ástæða væri til að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun. Sú stað­ reynd að lífeyrissjóðirnir búi yfir mikilli fjárfestingarþörf og megi að hámarki eiga 15% í hverju hlutafélagi geri það að verkum að líklegra sé að eignarhald þeirra nái til fleiri en eins fyrirtækis í sama geira.

„Þessi takmörkun sem hvílir á lífeyrissjóðunum hefur augljóslega þau áhrif að þeir dreifa sér meira. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða en það virðist ekki vera mikil stemning fyrir því að aflétta þessari takmörkun. Hugsanlega ekki heldur hjá lífeyrissjóðunum sjálfum, menn upplifa þetta mögulega sem einhvers konar áhættudreifingu,“ segir Páll. Því sé hins vegar ekki hægt að neita að ástandið sé óheppilegt.

„Rannsóknir sýna að þetta er mjög líklegt til að leiða til hærra verðs á vöru og þjónustu á viðkomandi markaði. Það er fagnaðarefni að lífeyrissjóðirnir og þessir fjárfestar hafi sett sér eigendastefnur og verklagsreglur um það hvernig þeir koma að stjórnun þessara fyrirtækja, en það leysir samt ekki allan vandann.“

Bendir hann á að þrátt fyrir óhæði stjórnarmanna geti vitneskja þeirra um eignarhald sömu eigenda í keppinaut spilað inn í ákvarðanatöku þeirra.

„Jafnvel þó að þú sért óháður stjórnarmaður í einu fyrirtæki og þér séu settar skýrar línur um að passa upp á samkeppni og annað slíkt, þá veit viðkomandi stjórnarmaður samt sem áður að sami eigendahópur er að baki keppinautnum. Það að fara til dæmis að auka markaðshlutdeild með því að lækka verð og auka samkeppni er ekki endilega eigandanum til góðs vegna þess að hann á hlut í keppninautnum sem verður fyrir þeirri samkeppni,“ segir Páll og undirstrikar þarna alvarleika málsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .