Samkeppniseftirlitið er hlynnt því að núverandi fyrirkomulag við sölu áfengis verði endurskoðað. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um áfengisfrumvarps Vilhjálms Árnasonar um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Þá segir í umsögninni að mikilvægt sé að opinberar aðgerðir takmarki ekki samkeppni, nema að skýrir almannahagsmunir liggi fyrir. Því eigi að spyrja af hverju viðhalda eigi núverandi takmörkunum í samkeppni.

Þá segir í umsögninni: „Með hliðsjón af framangreindu er Samkeppniseftirlitið fylgjandi því að núgildandi fyrirkomulag við sölu áfengis verði endurskoðað. Eftirlitinu er ljóst mikilvægi þess að löggjafinn leitist við að vernda samfélagið og einstaklinga frá þeirri vá sem neysla áfengis getur haft í för með sér. Til þess á hins vegar að velja þær aðferðir sem skerða frjálsa samkeppni sem minnst. Draga verður í efa að löggjafinn hafi lagt núgildandi lög á þann mælistokk.“

Jafnframt segir í umsögninni að Samkeppniseftirlitinu hafa borist allnokkrar ábendingar og kvartanir á síðustu árum um háttsemi ÁTVR á áfengismarkaði. Núgildandi lög feli hins vegar í sér verulega takmörkun á heimildum Samkeppniseftirlitsins til þess að bregðast við slíkum kvörtunum.