Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað frá kæru Já ehf., en félagið á og rekur vefsíðuna ja.is.

Já ehf. hafði krafist þess að Samkeppniseftirlitið myndi láta af rannsókn á meintum samkeppnisbrotum Já ehf. Samkeppniseftirlitið hafði komist að þeirri niðurstöðu í nóvember 2014 að Já ehf. hefði brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga með að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Eftirlitið sagði að Já ehf. ætti að veita keppinautum sínum aðgang að gagnagrunni sínum yfir símanúmer á málefnalegum kjörum og sektaði fyrirtækið um 50 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hins vegar ósannað að Já ehf. hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína.

Já ehf. sagði í rökstuðningi sínum til áfrýjunarnefndar að Samkeppniseftirlitið ætti að falla frá rannsókn málsins, meðal annars á þeim grundvelli að áframhaldandi meðferð málsins væri mjög íþyngjandi fyrir fyrirtækið. Áfrýjunarnefnd hafi áður komist að niðurstöðu í málinu og það eigi því að binda hendur eftirlitsins.

Breytir engu að rannsókn sé íþyngjandi fyrir málsaðila

Samkeppniseftirlitið sagði hins vegar að rannsókn málsins væri ekki stjórnsýsluákvörðun sem gæti sætt kæru og að engu breyti þó að rannsóknin sé íþyngjandi fyrir fyrirtækið. Eftirlitið segir einnig að í úrskurði áfrýjunarnefndar sé ekki tekin efnisleg afstaða til málsins, heldur sé málið fellt niður á grundvelli gallaðrar rannsóknar. Samkeppniseftirlitið sagðist einnig einungis vera að hefja rannsókn á ný með það fyrir augum að bæta úr þeim annmörkum sem voru á hinni upphaflegu rannsókn.

Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var sú að ekki væru sérstök rök fyrir því að víkja frá þeirri reglu að einungis væri hægt að kæra til nefndarinnar þær ákvarðanir sem binda endi á mál, en ákvörðun um rannsókn er ekki slíks eðlis.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í maí sl. að hún væri algjörlega sannfærð um að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Já hafi verið röng.