Grísir
Grísir
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Samkeppniseftirlitið hefur fellt úr gildi samruna Stjörnugríss hf. við Rekstrarfélagið Braut ehf. og LS2 ehf.

Áður hafi Samkeppniseftirlitið heimilað yfirtöku Stjörnugríss á tilteknum eignum félaganna, sem hafa farið með rekstur svínabúanna Brautarholts og Grísagarðs. Svínabúin höfðu komist í eigu Arion banka eftir að fyrirtækin sem ráku þau urðu gjaldþrota. Taldi Samkeppniseftirlitið ekki unnt að grípa til íhlutunar í samrunann vegna reglna samkeppnisréttarins um félög á fallandi fæti.

Ákvörðun eftirlitsins var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Staðfesti nefndin mat Samkeppniseftirlitsins að með kaupum Stjörnugríss á svínabúunum hefði fyrirtækið komist í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir svínarækt og styrkt markaðsráðandi stöðu sína á markaðnum fyrir slátrun á svínum. Nefndin taldi hins vegar ósannað að skilyrðin um fyrirtæki á fallandi fæti væru fyrir hendi. Af þeim sökum var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi og málinu vísað aftur til eftirlitsins til frekar meðferðar og nýrrar ákvörðunar.

Samkeppniseftirlitið rannsakaði málið að nýju. Með hliðsjón af gagnaöflun og úrskurði áfrýjunarnefndar er í ákvörðun eftirlitsins komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé sannað að skilyrði reglna um félag á fallandi fæti séu uppfyllt. Samkeppniseftirlitið fær ekki séð að líklegt sé að fyrir hendi séu skilyrði sem væru samrýmanleg samrunanum en að sama skapi til þess fallin að leysa hin samkeppnislegu vandamál sem af honum stafar. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið ógilt samrunann.