*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 10. maí 2013 08:47

Samkeppniseftirlitið rannsakar bankana

Kortaþjónustan hefur kært stóru viðskiptabankana þrjá fyrir aðkomu þeirra að samráðsmálum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kortaþjónustan hefur kært stóru viðskiptabankana á Íslandi fyrir aðkomu þeirra að samráðsmálum á undanförnum árum. Samkeppniseftirlitið rannsakar hvort bankar hafi veitt Borgun og Valitor betri kjör en Kortaþjónustunni á svokölluðum milligjöldum, sem eru þau gjöld sem færsluhirðar greiða til bankanna. Greint er frá þessu í Fréttatímanum.

„Við teljum að allir stóru bankarnir hafi haft samráð um að veita Borgun og Valitor ívilnandi kjör og aðstæður á kortamarkaði og sendum Samkeppniseftirlitinu kvörtun vegna þess árið 2009. Bankarnir sem gefa út greiðslukortin höfðu þá, að okkar mati, mismunað færsluhirðum með því að innheimta lægri milligjöld af Borgun og Valitor,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar í samtali við Fréttatímann.

Telur Jóhannes að bankarnir hafi haft samráð um það frá upphafi að fæla viðskiptavini frá fyrirtækinu. „Sem eitt dæmi um aðgerðir bankanna má nefna að ef verslanir voru í samstarfi við Kortaþjónustuna birtist tilvísunin „erlend viðskipti“ á yfirliti reikningseigenda. Slíkt veldur að sjálfsögðu ruglingi og notuðu bankanir þetta til að fæla fyrirtæki frá því að vera í viðskiptum við Kortaþjónustuna. Við sendum inn kvörtun vegna þessa árið 2009 og hálfu ári síðar hættu allir bankarnir þessu svo þeir voru mjög í takt í þessu máli,“ segir Jóhannes.

Í lok apríl sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að eftirlitið hefði til rannsóknar mál sem varði það hvernig bankarnir tvinni saman mismunandi þjónustu sem geri nýjum og minni keppinautum erfitt að komast inn á markaðinn.