Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að hefja markaðsrannsókn á íslenska eldsneytismarkaðnum. Þetta kemur fram á heimasíðu eftirlitsins. Markaðsrannsókn er nýtt form rannsóknar, sem felur í sér athugun á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Samkeppnislög heimila Samkeppniseftirlitinu að grípa til ýmis konar aðgerða til að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum, þótt þær stafi ekki af brotum á samkeppnislögum. Rannsókn af þessu tagi er m.a. hagfræðileg greining á samkeppni á tilteknum markaði, eða hlutum hans, og er til þess fallið að fá heildaryfirsýn yfir samkeppnislegar aðstæður á markaði.

Stjórn Samkeppniseftirlitsins hefur skipað ráðgjafahóp en hlutverk hans er að veita faglega ráðgjöf og aðstoð vegna rannsóknarinnar. Ráðgjafahópinn skipa:

  • Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands.
  • Þorkell Helgason, stærðfræðingur og fyrrverandi Orkumálastjóri.

Ákvörðun um markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði er byggð á gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið í tengslum við fyrri athuganir, erindi og ábendingar. Þá átti Samkeppniseftirlitið fundi með aðilum á markaðnum síðasta haust í því skyni að afla nýjustu upplýsinga um samkeppnisaðstæður.

Eldsneytisverð er hátt á Íslandi

Samkeppniseftirlitið áætlar að íslensk heimili hafi keypt bensín og díselolíu fyrir um 42 milljarða króna á árinu 2011. Ef bensín- og díselverð, án skatta og annarra opinberra gjalda, á árunum 2005-2011 er miðað við vegið meðalverð í aðildarríkjum Evrópusambandsins kemur í ljós að verð á bensíni á Íslandi var um 20% hærra og verð díselolíu um 15% hærra. Verð bensíns og díselolíu er að jafnaði með því hæsta sem þekkist í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins. Smæð og landfræðileg einangrun kann að sjálfsögðu að hafa áhrif á eldsneytisverð hér á landi. Þeim mun mikilvægara er að samkeppni sé ekki raskað vegna samkeppnishamlandi aðstæðna á markaðnum eða háttsemi þeirra fyrirtækja sem starfa á honum, auk þess sem mikilvægt er að framleiðsluþættir viðkomandi markaðar séu nýttir á sem hagkvæmastan hátt.