Samkeppniseftirlitið framkvæmdi í dag húsleitir hjá drykkavöruframleiðendunum Vífilfelli og Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Í stuttri tilkynningu frá eftirlitinu segir að aðgerðirnar séu liður í rannsókn sem einkum beinist að hugsanlegum brotum á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta.

Fréttatilkynning Samkeppniseftirlitsins:

„Í tilefni af fréttaumfjöllun vill Samkeppniseftirlitið taka fram að það hefur í dag framkvæmt húsleit hjá Vífilfelli hf. og Ölgerð Egils Skallagrímssonar hf. Aðgerðirnar eru liður í rannsókn sem einkum beinist að hugsanlegum brotum á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta.“

Samkeppniseftirlitið sektaði Vífilfell um 260 milljónir króna í lok mars sl. Eftirlitið komst þá að þeirri niðurstöðu að félagið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á gosdrykkjamarkaði og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði Vífilfell með því að gera fjölmarka einkakaupasamninga við viðskiptavini síni sem skuldbatt þá til þess að kaupa gosdrykki einungis af félaginu, segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitnu frá því 30. mars sl.