Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi í gær úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Mjólkursamsölunnar, þar sem fyrirtækið hafði verið sektað um 370 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Með ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar var því beint til Samkeppniseftirlitsins að rannsaka tiltekna þætti málsins betur og taka nýja ákvörðun í málinu.

„Þetta er vissulega áfangasigur. Málið telst ekki rannsakað til þeirrar niðurstöðu sem kynnt var og 370 milljóna króna sektin verður nú endurgreidd félaginu,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Rannsaki samning MS og KS betur

Með niðurstöðu sinni vísar áfrýjunarnefndin því til Samkeppniseftirlitsins að rannsaka betur ákveðinn þátt málsins sem lýtur að samstarfi Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga. Einar segir áfrýjunarnefndina benda á að samstarfssamningur milli aðilanna hafi ekki komið fram sem gagn í málinu fyrr en í áfrýjunarferli og að ekki hafi farið fram nægileg rannsókn á því hvernig fyrirtækin hafi unnið á grundvelli hans.

„Mjólkursamsalan áréttar að fyrirtækið veitti á öllum stigum málsins upplýsingar um efni samstarfsins og eðli þess sem byggði á þessum samningi. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur samt að þurft hefði að kanna málið betur og vísar því til Samkeppniseftirlitsins. Mjólkursamsalan mun kappkosta að veita sem ítarlegastar upplýsingar í þeirri skoðnum og telur að þeirri rannsókn lokinni verði sýnt verði fyrirtækið hafi ekki brotið samkeppnislög,“ segir Einar.

Lýsa furðu á að MS hafi leynt samningi

Forsvarsmenn Mjólkurbúsins, sem kærði MS upphaflega til Samkeppniseftirlitsins, sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem þeir lýstu furðu sinni á því að Mjólkursamsalan skuli hafa leynt samningi við Kaupfélag Skagfirðinga þar til við loka málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni.

„Þessi vinnubrögð eru eingöngu til þess fallin að draga málið á langinn og vekja spurningar um hvort fleiri leyniskjöl eigi eftir að koma fram. Mjólkurbúið ber fyllsta traust til Samkeppniseftirlitsins og treystir því til að ljúka rannsókn málsins fljótt og vel til hagsbótar fyrir íslenska neytendur. Mjólkurbúið leggur áherslu á að í þeirri viðbótar rannsókn sem nú verður ráðist í verði staða Mjólkursamsölunnar rannsökuð til hlítar, þar á meðal hvort fyrirtækið geti talist afurðastöð í skilningi búvörulaga,“ segir í tilkynningunni.