Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna MP banka og Straums fjárfestingabanka, en þetta kemur fram í ákvörðun sem birtist á vefsíðu stofnunarinnar .

Í ákvörðuninni kemur fram að á þeim mörkuðum sem bankarnir starfi eigi þeir meðal annars í samkeppni við þrjá alhliða banka sem séu hver um sig miklum mun stærri en sameinaður banki. Verulegur munur sé því á fjárhagslegum styrkleika sameinaðs banka og hvers þessara stóru banka.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði. Jafnframt verði ekki séð að samkeppni á mörkuðum raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Fram kom í fréttatilkynningu í gær að stjórnir MP banka og Straums hafa boðað til hluthafafundar hjá félögunum þann 22. júní næstkomandi. Á fundinum verður tillaga um samruna lögð fyrir hluthafa, en stefnt er að því að sameinaður banki hefji starfsemi undir nýju nafni næsta haust.