Hæstiréttur Íslands staðfesti í síðustu viku úrskurð héraðsdóms frá 16. janúar um frávísun máls Wow air gegn Samkeppniseftirlitinu, Isavia og Icelandair ehf.

Málið snýst um úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs áætlunarflugs félagsins til Bandaríkjanna sumarið 2014, en fyrir einu og hálfu ári úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Wow air skyldi fá tvo af tímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála sneri úrskurðinum hins vegar við og höfðaði Wow air málið í kjölfarið.

Á meðan málið var til meðferðar hjá dómstólum sendi Wow air nýtt erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna afgreiðslutíma fyrir næstkomandi sumar.

Steingrímur Ægisson, sviðsstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu, segir í samtali við Túrista að ekki sé hægt að gefa neinar upplýsingar að svö stöddu um gang mála. Segir hann að nú þegar dómur Hæstaréttar liggi fyrir verði tekin afstaða til seinna málsins, en ekki liggi fyrir hvenær niðurstöðu sé að vænta.

Bandaríkjaflug Wow air mun hefjast þrátt fyrir þetta í marsmánuði, en félagið kvaðst hafa fundið hentuga tíma fyrir flugið og fara flugvélar þess í loftið fyrr á daginn en vélar Icelandair, sem alla jafna fljúga leiðina seinni part dags.