Samkeppniseftirlitið hyggst stefna MS fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að þola ógildingu niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar um samspil búvörulaga og samkeppnislaga.

Í júli þessa árs komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að MS hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

„MS skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð 21. nóvember sl. Meirihluti nefndarinnar komst m.a. að þeirri niðurstöðu að undanþáguákvæði búvörulaga hefðu vikið banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu til hliðar. Af þessu leiddi að sekt MS vegna brota á 11. gr. samkeppnislaga var felld úr gildi og hið sama gildir um framangreind fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins. Á hinn bóginn staðfesti nefndin að MS hefði framið alvarlegt brot á upplýsingaskyldu samkeppnislaga og að fyrirtækinu bæri að greiða 40.000.000 kr. sekt vegna þess,“ segir í fréttatilkynningunni.

Einnig er tekið þar fram að: „Með lögum, sem tóku gildi árið 2011, var Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að bera úrskurði áfrýjunarnefndar undir dómstóla, en fyrir gildistöku laganna gátu aðeins einstök fyrirtæki höfðað slík mál. Tilgangur þessarar lagabreytingar var að gera Samkeppniseftirlitinu betur kleift að „vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felast í virkri samkeppni“. Taldi löggjafinn mikilvægt að Samkeppniseftirlitið gæti borið „stór og mikilvæg mál“ sem varða hagsmuni neytenda undir dómstóla. Með þessu móti væri stuðlað að jafnræði á milli gæslu almannahagsmuna og einkahagsmuna fyrirtækja fyrir dómstólum í samkeppnismálum.“

Hægt er að lesa nánar um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hér .