Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Samkeppniseftirlitið til að greiða fyrirtækjunum Langasjó, móðurfélags Síldar og fisks og Matfugls þrjár milljónir króna í málskostnað ásamt því að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá í fyrra sem fól í sér að fyrirtækin þrjú þyrftu að greiða stjórnvaldssekt upp á 80 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum.

Málið á rætur að rekja allt aftur til ársbyrjunar 2007 þegar Samkeppniseftirlitið hóf athugun á viðskiptasamningum birgja og matvöruverslana. Hún leiddi í ljós að í þrettán matvöruverslunum þar sem kannað var verð á kjöti og vörum unnum úr kjöti voru tilteknar afurðir verðmerktar fyrir fram fyrir verslanir með svokölluðu leiðbeinandi smásöluverði og að mjög lítill verðmunur var á milli verslana. Á hinn bóginn hafi verð á öðrum vörum sem verslanirnar verðmerktu sjálfar verið mjög breytilegt eftir verslunum og verðmunur í sumum tilvikum numið tugum prósenta. Samkeppniseftirlitið taldi þetta vísbendingu um að verðsamkeppni væri takmörkuð á milli matvöruverslana á þeim kjötvörum sem væru merktar með leiðbeinandi smásöluverði.

Árið 2011 var svo komist að þeirri niðurstöðu að Síld og fiskur Matfugl hefðu brotið grein samkeppnislaga og móðurfélaginu Langasjó stefnt til að greiða stjórnvaldssekt upp á 80 milljónir króna.

Héraðsdómur taldi hins vegar að ekki hafi verið sýnt nægilega fram á að félögin hafi verið ein efnahagsleg eining í skilningi samkeppnisréttar og því hafi Samkeppniseftirlitinu ekki verið heimilt að beina sektarákvörðun að þeim. Þá segir í dómi héraðsdóms að málsmeðferð hafi verið ábótavant og í ýmsum atriðum í andstöðu við málsmeðferðarreglur nr. 880/2005 og meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 13 gr. laganna.