Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna samruna 10/11 og 11/11. Tíu ellefu ehf. keypti vörumerki 11/11af Kaupási hf. og fjallaði því Samkeppniseftirlitið um kaupin þar sem í þeim fólst samruni í skilningi samkeppnislaga.

Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að samruninn raski ekki samkeppni samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í 17. grein samkeppnislaga. „Við rannsókn málsins var m.a. horft til þess að markaðshlutdeild 10-11 á dagvörumarkaði er lítil og að fyrir eru á markaðnum sterkir aðilar. Er samruni þessi frekar til þess fallinn að bæta heildarstöðuna á dagvörumarkaðnum þar sem markaðshlutdeild minni aðila, 10-11, eykst lítillega á meðan hlutdeild stórs aðila, Kaupáss, minnkar lítillega,“ segir meðal annars í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

10-11 festi kaup á vörumerkinu 11/11, innréttingum og öðru lausafé, til viðbótar við að taka yfir húsaleigusamninga við leigusala þeirra 11/11 verslana sem eftir stóðu, önnur við Hlemm í Reykjavík og hin í Þverbrekku í Kópavogi. Jafnframt kemur fram í samrunaskránni að tekinn verði yfir húsaleigusamningur við Grensásveg 46 þar sem verslunarstarfsemi hafi verið aflögð en félagið sé enn bundið húsaleigusamningi til langs tíma. Þá kemur fram að um sé að ræða hlutasamruna sem einungis nái til þessara takmörkuðu eigna og yfirtöku á leigusamningum.