*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 18. ágúst 2018 12:00

Samkeppniseftirlitið ósveigjanlegt

Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 segir að Samkeppniseftirlitið sé að átta sig á að verslun og þjónusta á Íslandi þurfi nauðsynlega að fara í gegnum hagræðingu.

Höskuldur Marselíusarson
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.
Aðsend mynd

Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 segir að Samkeppniseftirlitið sé að átta sig á að verslun og þjónusta á Íslandi þurfi nauðsynlega að fara í gegnum hagræðingu. Hann segir að ferli stofnunarinnar við að samþykkja samruna félagsins við Festi hafi tekið of langan tíma og hann myndi vilja sjá að fyrirtæki fengju meiri leiðbeiningar frá eftirlitinu.

„Það eru einfaldlega of margir fermetrar á bak við hverja krónu í íslenskri verslun og þjónustu, líkt og McKinsey skýrslan fór ítarlega yfir á sínum tíma. Það er nauðsynlegt að menn nýti betur fasteignir og framleiðsluþætti í rekstri almennt. Ég hugsa að sátt N1 við Samkeppniseftirlitið sé upphafið á því að við förum að sjá frekari hagræðingu í atvinnulífinu,“ segir Eggert Þór sem segir þessa þróun eiga sér stað um allan heim.

„Stóra myndin í málinu er að víða eru að verða samrunar til að minnka kostnað til að fyrirtæki geti boðið viðskiptavinum sínum upp á betra verð sem aftur viðheldur lífskjörum. Þetta er fyrsti samruninn á Íslandi af einhverri stærðargráðu sem vert er að tala um síðan fyrir hrun. Þannig að þetta er stórt skref fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni að við höfum náð þessu í gegn og líklega prófsteinn á að hægt sé að ganga lengra í að samtvinna rekstur hér á landi. Vandamálið er að við erum í samkeppni við erlenda aðila, og þá er ég ekki að tala um Costco, heldur netverslun.“

Eggert Þór bendir á áhrif afnáms vörugjalda og breyttra verslunarhátta með tilkomu aukinnar netverslunar. „Í dag getur fólk farið á heimasíðu Weber grillframleiðandans og keypt sér grill og látið senda sér það heim til Íslands. Sama gildir til dæmis um eina af verslunum Festi, Elko sem er stærsti söluaðili stærri heimilistækja á landinu. En núna getur hver sem er keypt sjónvörp, ísskápa og annað á netinu. Þar erum við því að sjá mikla samkeppni, en í því eru mikil tækifæri fyrir Elko,“ segir Eggert Þór, en hann sér fyrst og fremst fyrir sér að hægt verði að ná kostnaði í yfirbyggingu fyrirtækjanna niður.

„Eftir þrjú til fjögur ár þá hef ég trú á því að það verði ekkert fleiri að vinna í höfuðstöðvum sameinaðs fyrirtækis en eru í höfuðstöðvum N1 nú. Það er fyrst og fremst kostnaður við fjármálasvið, stjórn og stjórnendur sem þarf að ná niður, og ekki bara hjá okkur. Í höfuðstöðvum fyrirtækja blasir við sú þróun að sjálfvirkni eykst í þeim ferlum sem mannshöndin kemur að í dag. Það mun fækka störfum en að sjálfsögðu munu jafnframt koma ný störf eins og sagan hefur sýnt okkur. Það verða þó engar hópuppsagnir heldur mun þetta gerast hægt og rólega, en ég held að meðalstöðugildin verði um ellefu hundruð hjá okkur eftir sameininguna.

Til samanburðar við okkur er til dæmis höfuðstöðvakostnaður Costco á Íslandi pínulítil baun, því þeir geta dreift honum á svo marga staði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér