Ísland hækkar um fjögur sæti á lista svissneska viðskiptaháskólans IMD yfir samkeppnishæfni landa og er nú í 25 sæti. Undanfarin fimm ár hefur Ísland verið að fikra sig upp listann en fór neðst í 31. sæti árið 2011. Það segir sína sögu að árin 2005 og 2006 var Ísland í fjórða sæti yfir samkeppnishæfustu ríkin að mati IMD. Upplýsingum um Ísland er safnað í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands.

Ýmislegt þarf betur að fara hér á landi til að Ísland geti haldið áfram að bæta samkeppnisstöðu sína og í skýrslu IMD er afnám gjaldeyrishafta efst á blaði. Þá segir í samantektinni að ýta þurfi undir frekari innlenda og erlenda fjárfestingu og minnka opinberar skuldir með kerfisbreytingum í opinbera geiranum. Að lokum eru íslensk stjórnvöld hvött til að auka frjálsræði í viðskiptum við útlönd með það að markmiði að auka framleiðni í íslenska þjónustugeiranum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .