Viðskiptaráð Íslands, hefur tekið saman þau atriði sem stofnunin telur stærstu verkefni næsta kjörtímabils . Þar kemur fram að: „Næsta ríkisstjórn mun taka við stjórnartaumum við góðar efnahagsaðstæður. Viðsnúningur síðustu ára hefur gjörbreytt stöðu ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja. Þá líta helstu hagvísar vel út bæði í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Staða Íslands er því um margt öfundsverð og full ástæða til að hrósa því sem vel hefur verið gert.“

Þó tekur Viðskiptaráð fram að blikur séu á lofti um mögulega ofþenslu og efnahagssamdrátt á næstu árum. VÍ telur að ríflegar launahækkanir og hröð styrking krónunnar geti haft þau áhrif að gengi gjaldmiðlisins kann að vera sterkara en samræmist langtímajafnvægi. „Haldi þessi þróun áfram eykst hættan á að krónan veikist skyndilega með tilheyrandi sársauka og lífskjararýrnun fyrir íslensk heimili.

Mikilvægustu verkefni næstu ríkisstjórnar að mati Viðskiptaráðs eru eftirfarandi;

1. Langtímastefna um aukna samkeppnishæfni

Að mati Viðskiptaráðs, skiptir alþjóðleg samkeppnishæfni mestu máli fyrir lífskjör. Þeir benda á að framleiðni vinnuafls sé talsvert lægra hér en hjá nágrannaþjóðum. Þeir benda jafnframt á að helstu útflutningsgreinar okkar standa nú frammi fyrir vaxtaskorðum vegna takmarkaðs eðlis náttúruauðlinda.

„Með þetta í huga leggjum til að starfsemi Samráðsvettvangsins verði efld á næsta kjörtímabili. Ný stjórnvöld geta hvort sem er byggt á þeim grunni sem þegar er til staðar eða mótað nýjan vettvang með sömu markmið og aðferðafræði að leiðarljósi,“ segir í ráðleggingum Viðskiptaráðs.

2. Stöðugleiki á vinnumarkaði

VÍ benda á að nýrri ríkisstjórn bíða mikilvæg verkefni í vinnumarkaðsmálum. Hún þarf að þeirra mati að gera allt í seinn; „styðja við samkomulag um stöðugleika á vinnumarkaði með lagasetningu, vinda ofan af aðgerðum sem hafa sett vinnumarkaðinn í uppnám og tryggja að aðgerðir næsta kjörtímabils raski ekki stöðugleika enn frekar.“

3. Skattaumbætur og forgangsröðun

Viðskiptaráð telur að ríkið ætti að leggja mesta áherslu á að halda áfram að niðurgreiða skuldir, auka hagkvæmni í rekstri hins opinbera, að forgangsraða verkefnum og gera skynsamlegar skattaumbætur. „eð fjármálastefnu af þessu tagi geta stjórnvöld stuðlað samhliða að efnahagslegum stöðugleika, aukinni verðmætasköpun og eflingu grunnþjónustu hins opinbera,“ segir í greiningu VÍ.