Ísland færist upp um eitt sæti milli ára samkvæmt skýrslu IMD yfir samkeppnishæfni þjóða. Ísland stendur nú í 24. sæti listans af 61 landi, en var í 25. sæti fyrir ári. Samkeppnishæfnin er öllu betri hjá frændum okkar. Þannig stendur Noregur í sjö­ unda sæti listans, Danmörk í því áttunda og Svíþjóð í níunda sæti.

Samkeppnishæfni segir til um getu þjóða til að halda uppi hagvexti og auka efnisleg og óefnisleg lífsgæði íbúa þess til lengri tíma litið. Að því sögðu er samkeppnishæfni af flestum talin æskileg.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að Ísland hefur færst upp um fimm sæti á lista IMD á síðustu tveimur árum. Niðurstöðurnar sýna að við erum á réttri leið, enda hefur efnahagur landsins loks tekið við sér og þjóðin búið við einstakt stöðugleikaskeið að undanförnu. Könnun IMD staðfestir að innviðir hérlendis eru sterkir og að Ísland er í hópi samkeppnishæfustu landa heims,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í tilefni af útgáfu skýrslunnar.

Góðir innviðir en lélegt hagkerfi

IMD lítur til fjögurra meginstoða þegar samkeppnishæfni er metin, en matsliðirnir eru í heild 362 talsins. Í fyrsta lagi er litið til gæða innviða, en þeir eru taldir helsti styrkleiki Íslendinga. Í samanburði við önnur lönd telst Ísland í 11. sæti hvað gæði innviða varðar. Ísland er í 22. sæti hvað skilvirkni hins opinbera varðar og í 29. sæti þegar kemur að skilvirkni atvinnulífsins.

Helsti veikleiki Íslendinga er hagkerfið. Þar telst Ísland vera í 44. sæti af 61. og er að því leyti eftirbátur þjóða á borð við Rússland, Sló­ veníu, Ítalíu og Tyrkland. Athygli vekur að frammistaða hagkerfisins versnar mikið milli ára hjá Íslendingum á milli 2014 og 2015 að mati IMD, á meðan aðrar meginstoðir batna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .