Í árlegri skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins (World Economics Forum) sem birt var í dag kemur fram að samkeppnishæfni Íslands fer niður um eitt sæti milli ára og er það komið nú í 28. sæti í samanburði við önnur þjóðríki. Alls tóku 138 þjóðríki þátt í rannsókn ráðsins.

Sviss er hins vegar í fyrsta sæti sem samkeppnishæfasta efnahagslíf heims, níunda árið í röð, en Bandaríkin stíga upp í annað sætið úr þriðja sætinu og komast þannig upp fyrir Singapore. Þar á eftir koma Holland og Þýskaland, og svo hækkar Hong Kong úr níunda sæti upp í það sjötta. Hins vegar falla bæði Svíþjóð og England niður um eitt sæti hvort um sig, það er í sjöunda og áttunda sætið.

Ráðið birtir einnig aðra skýrslu þar sem mældur er samfélagslegur vöxtur í samanburði við aðrar þjóðir, en þar situr Ísland í fjórða sæti. „Hafa ber í huga samkeppnishæfni landa mælir getu landa til framíðar með áherslu á hagtölur og sjónarmið ýmissa hagaðila,“ segir í fréttatilkynningu um málið um hina mismunandi mælikvarða.

„Samfélagslegur vöxtur skoðar hinsvegar vöxt samfélagsins þar sem ýmis félagsleg atriði eru tekin með í reikninginn eins og jöfnuður innan þess og ýmsar samfélagslegar umbætur.“ Samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins hér á landi er Nýsköpunarmiðstöð Íslands og sér hún um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.

„Vísitala Alþjóða efnahagsráðsins er einn af virtustu mælikvörðum á efnahagslíf þjóða víða um heim,“ segir jafnframt í tilkynningunni. „Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar. Rannsóknin byggir á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífinu.“