Ísland situr í 30. sæti í mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á samkeppnishæfni þjóða. Þetta er óbreytt staða frá í fyrra. Sviss trónir á toppi listans. Hin níu löndin á listanum yfir þau tíu þar sem samkeppnishæfnin er mest eru Singapúr, Finnland og Svíþjóð, Holland, Þýskaland og Bandaríkin, Bretland, Hong Kong og Japan. Engin breyting er á tveimur efstu sætunum á milli ára en örlítið breyting á röðun landa þar fyrir neðan. Búrúndí, nágrannaríki Rúanda í Austur-Afríku, vermir botnsæti listans yfir samkeppnishæfni þjóðanna.

Veikur fjármálamarkaður

Fram kemur í umsögn ráðsins um stöðu Íslands að að þrátt fyrir erfiðleika á ýmsum sviðum hin síðustu ár þá haldi landið áfram að hagnast af nokkrum mikilvægum samkeppnisþáttum sem hjálpi því að færast nær aukinni sjálfbærni og velgengni í efnahagslífinu. Um er að ræða þætti á borð við stöðu heilbrigðismála og menntunar á öllum stigum og viðskiptalíf sem drifið er áfram af nýsköpun og áherslu á nýja tækni sem eykur framleiðni á mörgum sviðum. Þá hefur sveigjanleiki á vinnumarkaði áhrif. Þrálátur veikleiki efnahagsumhverfisins og veikur fjármálamarkaður heldur hins vegar áfram að draga úr samkeppnishæfni Íslands og veldur því að landið stendur í stað á milli ára.

Skýrsla World Economic Forum og nánari upplýsingar um samkeppnishæfni þjóðanna