Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og ráðgjafi hjá Boston Consulting Group fjallar um hagsmuni flugfélaga og samfélagsins í grein sem birtst í Viðskiptablaðinu . Í greininni kemur hann meðal annars inn á samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga.

„Sem dæmi um samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga er hægt að skoða launakostnað flugfreyja og flugþjóna hjá British Airways og Icelandair ,“ skrifar Egill Almar. „Meðallaun flugfreyja Icelandair eru 520 þús. á mánuði plús 140 þús. í dagpeninga (skv. tilkynningu Icelandair 2020). Með launatengdum gjöldum er því kostnaður Icelandair vegna meðallauna flugfreyju um 750 þúsund á mánuði, eða um 9 milljónir á ári.

Meðalárslaun flugfreyja British Airways (skv. nýjum kjarasamningi fyrir Heathrow flugfreyjur) eru um 4 milljónir (23.000 pund) en með launatengdum gjöldum er launakostnaður um 4,3 milljónir. Jafnframt er líklegt að British Airways nái betri nýtingu á sínum flugfreyjum, sökum þess að leiðakerfi British Airways er öðruvísi en hjá Icelandair . Þetta er meira en helmingsmunur í kostnaði. British Airways er ekki lágfargjaldaflugfélag frá Austur-Evrópu, og því líklegt að laun þeirra félaga séu enn þá lægri.“

Þá bendir Egill Almar á í greininni að gjaldeyristekjur af þeim ferðamönnum sem komu til Íslands með Icelandair árið 2018 hafi verið um 220 milljarðar, sem sé álíka og allur sjávarútvegurinn það árið. Þá hafi gjaldeyristekjur af þeim ferðamönnum sem komu með Wow Air það árið verið um 120 milljarðar, sem sé meira en allur áliðnaðurinn.

Hins vegar skili ábati fyrir þjóðarbúið sér ekki endilega í vasa eigenda flugfélaganna eins og dæmin sanna í tilfelli Wow Air. Því sé brýnt að búa þannig um hnútana að samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga sé tryggð. Með þeim hætti sé vel raunhæft markmið að 3,4 eða 5 milljónir ferðamanna sæki Ísland heim á hverju ári. Með því mætti búa til gjaldeyristekjur sem geti verið fimmfaldar á við sjávarútveginn.