Það eru viðsjár í efnahagslífi Íslands, dregið hefur úr hagvexti og merki eru uppi um minni vöxt á vinnumarkaði en Íslendingar hafa átt að fagna á undanförnum árum. En þegar litið er til alþjóðlegrar tölfræði um samkeppnishæfni, ekki síst hvað varðar rekstrarumhverfi fyrirtækja og nýsköpun í atvinnulífi stendur Ísland ágætlega. Í nýrri, árlegri skýrslu Alþjóðabankans (sjá töflu neðst) um það hvar ákjósanlegast er að stofna til fyrirtækisrekstrar, er Ísland þannig í 21. sæti af þeim 190 ríkjum, sem bankinn tók saman gögn um. Ef aðeins er litið er til Evrópuríkja er Ísland í 9. sæti, sem er hreint ekki slæmt.

Í annarri nýlegri skýrslu, sem tekin var saman af bresku ráðgjafarfyrirtæki fyrir smá og meðalstór fyrirtæki (og byggði m.a. á tölum Alþjóðabankans, auk ýmissa annarra þátta, svo sem hagvaxtar, stöðugleika, menntunar, atvinnuþátttöku og lífsfyllingar), var Ísland í öðru sæti þeirra ríkja, sem bent var á hefðu menn áhuga á að hasla sér völl utanlands.

Það breytir þó ekki hinu, að Ísland getur enn bætt samkeppnishæfni sína á ýmsum sviðum. Þar er menntun einna efst á blaði. Í skýrslu Alþjóðabankans er raunar bent á að ekki sé sama á hvaða sviði hún liggur eða hvar hún er nýtt. Fjölbreytileg menntun er þannig vísir að velmegun, en vel menntað starfsfólk tryggir ekki alltaf aukna skilvirkni. Þannig er til dæmis augljóst að á heimsvísu verður tollafgreiðsla hvorki betri né skjótari eftir því sem lögfræðingum embættanna fjölgar!

Graf 2 með samkeppnishæfnisgrein
Graf 2 með samkeppnishæfnisgrein
© vb.is (vb.is)

Rúm til umbóta
Regluverk á vinnumarkaði getur vissulega tryggt ýmis réttindi, en öllu má ofgera, eins og sjá má á meðfylgjandi gröfum. Eftir því sem regluverkið á því sviði verður ósveigjanlegra hamlar það atvinnulífinu, dregur úr nýsköpun þess og ýtir undir lausráðningar og hlutastörf, sem var örugglega ekki ætlunin. Vafalaust er rétt að huga að því hér á landi, en Ísland er óvenjulegt um það, að vandfundið er það land, þar sem aðild að verkalýðsfélögum er almennari.

Sem sjá má á töflunni neðst er Ísland talsvert undir meðallagi þegar kemur að því hversu auðvelt er að afla byggingarleyfa, sem vafalaust má bæta úr með pólitískum aðgerðum og betri stjórnun hjá sveitarfélögum. Eins er ekki tiltakanlega auðvelt fyrir nýja aðila að afla sér lánstrausts hjá fjármálastofnunum og í skýrslu Alþjóðabankans er bent á að nokkuð skorti upp á gegnsæi á lánshæfi og að bæta mætti innviðina á því sviði. Það er hins vegar eitthvað sem stjórnvöld geta lítið hlutast um og markaðurinn þarf að sinna betur. Aftur á móti stendur upp á hið opinbera að auðvelda flutninga milli landa.

Ísland stendur vel að vígi á efnahagssviðinu og þó að kjaradeilur muni setja svip á vinnumarkaðinn á næstunni hefur stjórnmálaástandið tæplega verið hagfelldara í 10 ár til þess að bæta það, sem bæta má, hvað varðar samkeppnishæfni landsins. Þar er til mikils að vinna.

Tafla með samkeppnishæfnisgrein
Tafla með samkeppnishæfnisgrein
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .