Ísland færist upp um fimm sæti á lista IMD yfir samkeppnishæfni þjóða og er í 26. sæti af samtals 59 löndum. Árið 2010 var Ísland í 30. sæti en féll um eitt sæti ári seinna. Efst á listanum er Hong Kong með einkunnina 100. Ísland er með 71,54 stig.

Af öðrum Evrópulöndum er Sviss í 3. sæti, Svíþjóð í 5. sæti og Þýskaland í 9. sæti.

Í rökstuðningi fyrir einkunnagjöfinni kemur fram að viðsnúningur hefur orðið og eru veigamestu þættirnir í þeirri breytingu meðal annars beinar fjárfestingar inn í landi sem hafa aukist. Það sem dregur úr samkeppnisstöðu okkar samkvæmt skýrslu IMD eru m.a. fjármál hins opinbera og orkukræfni. Orkukræfnin hefur hækkað en það er mælikvarði á það hversu orkukræf framleiðslan er.

Samkeppnislistinn er gefinn út af IMD viðskiptaháskólanum í Sviss sem er í samstarfi við 54 aðila víða um heim og hefur gert rannsóknir sínar frá árinu 1989. Viðskiptaráð Íslands er samstarfsaðili hér á landi.

Ítarlega er fjallað um samkeppnishæfni landsins og samkeppnislista IMD í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.