Samkeppnishæfni Íslands heldur áfram að batna. Ísland er í 20. sæti á nýjum lista rannsóknarstofnunar IMD viðskiptaháskólans yfir samkeppnishæfni 63 þjóða árið 2017 og hækkar um þrjú sæti milli ára. Hong Kong trónir á toppi listans annað árið í röð. Þar á eftir koma Sviss, Singapúr og Bandaríkin, en samkeppnishæfni þar vestra hefur ekki mælst lægri í fimm ár.

Frá árinu 1989 hefur rannsóknarstofnun IMD viðskiptaháskólans í Sviss (International Institute for Management Development) birt úttekt á ári hverju um samkeppnishæfni þjóða, IMD World Competitiveness Yearbook . Úttektin er ein sú virtasta sinnar tegundar og byggir á rannsóknum um samkeppnishæfni ásamt upplýsingum frá um 60 samstarfsaðilum stofnunarinnar víða um heim. Viðskiptaráð Íslands og Íslandsbanki stóðu fyrir morgunfundi um samkeppnishæfni Íslands í Hörpu í gær þar sem niðurstöður nýjustu úttektar IMD voru meðal annars kunngjörðar.

Samkvæmt aðferð IMD er samkeppnishæfni ríkis skilgreind sem geta þjóðar til að skapa og viðhalda umhverfi sem tryggir sjálfbæra og varanlega aukningu á verðmætasköpun og lífsgæðum. IMD mælir samkeppnishæfni ríkis út frá samsettri einkunn sem skiptist í fjóra meginþætti: efnahagsleg frammistaða, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og stofnanaumgjörð. Þessir þættir skiptast síðan í 260 undirþætti. Tveir þriðju þeirra byggja á hagtölum og þriðjungur byggir á alþjóðlegri stjórnendakönnun. Könnunin mælir við­ horf yfir 6.250 stjórnenda gagnvart þáttum á borð við spillingu, umhverfismál og lífsgæði.

Hækkun Íslands á listanum milli 2016 og 2017 er fyrst og fremst rakin til aukinnar skilvirkni hins opinbera og atvinnulífsins. Í því fyrrnefnda hækkar Ísland úr 17. sæti í 8. sæti, og úr 27. sæti í 24. sæti í því síðarnefnda. Báðir þessir þættir hafa batnað undanfarin þrjú ár. Hvað stofnanaumgjörð eða samfélagslega innviði varðar stendur Ísland í stað milli ára, í 17. sæti. Efnahagsleg frammistaða Íslands er þó lakari en áður og lækkar Ísland um tíu sæti á þeim mælikvarða, úr 29. sæti í 39.

Ísland hefur þokast upp á við á lista IMD á hverju ári síðan 2013, þegar það var í 29. sæti. Hæst fór Ísland í 4. sæti á listanum 2005 til 2006 – hæst allra Norðurlanda – en lægst í 31. sæti árið 2011.

Sterk króna dragbítur

Á heildina litið segir Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs, niðurstöður skýrslu IMD jákvæðar. Hún bendir þó á að sterkt gengi krónunnar hafi neikvæð áhrif á samkeppnishæfni og að mikilvægt sé að huga að heildarmyndinni í efnahagsmálum.

„Það er fagnaðarefni að sjá Ísland fara upp um þrjú sæti milli ára,“ segir Kristrún. „Hið opinbera kemur vel út úr könnuninni, en þar vegur þungt viðsnúningur í afgangi hjá ríkissjóði á síðasta ári. Þá sjáum við einnig framför í atvinnulífinu þar sem framleiðni hefur tekið við sér.“

Kristrún bendir þó á að sterkt gengi íslensku krónunnar hafi lamandi áhrif á alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands.

„Þó varast eigi að lesa of mikið út úr einstaka liðum innan undirflokkanna fjóra, sem taka auðvitað einnig mið af frammistöðu annarra landa, þá segja þessar niðurstöður okkur í hvaða átt hlutirnir eru að þróast hér. Innlendur efnahagur mælist mjög sterkur í alþjóðlegum samanburði, þar sem hagvöxtur var mikill í fyrra og atvinnustig hátt. En sterkt gengi íslensku krónunnar er rauði þráðurinn í flestum þeim þáttum sem draga okkur niður í efnahagslegri frammistöðu.“

Nefnir Kristrún að þessi neikvæðu áhrif krónunnar birtist í því að vöruútflutningur hafi ekki fylgt hagvexti. Þá bendir stjórnendakönnun IMD til þess að fyrirtæki velti í auknum mæli fyrir sér þeim valkost að flytja starfsemi sína út fyrir landsteinana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .