Sérfræðingar Bloomberg New Energy Finance telja að raforkusæstrengur á milli Íslands og Bretlands geti reynst samkeppnishæfur þegar kemur að orkuverði miðað við aðra græna orkugjafa. Helstu spurningarnar sem standi eftir snúi helst að íslenskum stjórnvöldum samkvæmt skýrsluhöfundum sem segja að tæknilegir þröskuldar virðist yfirstíganlegir. Einn helsti kosturinn við íslensku orkuna er sagður vera að það megi afhenda hana eftir þörfum en ekki eingöngu þegar veður leyfir eins og á við um marga aðra endurnýjanlega orkugjafa.

Í greiningu sem sérfræðingar Bloomberg gerðu á verkefninu og Viðskiptablaðið hefur undir höndum er kostnaður við strenginn sjálfan metinn frá 313 milljörðum við neðri mörk til 396 milljarða við efri mörk (1.669-2.109 miljónir punda). Heildarfjárfesting vegna sæstrengs, jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana og endurbóta á raforkuneti landsins myndi hljóða upp á um 813 milljarða (4.327 milljónir punda) samkvæmt mati Bloomberg.

Hagkvæmara en kjarnorka

Ef kostnaður yrði á miðbiki kostnaðaráætlunar Bloomberg þá þyrfti raforkuverð fyrir selda orku að vera um 86 pund á hvert megawatt. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa bresk stjórnvöld viðrað það við íslenska aðila að orka í gegnum sæstreng yrði tryggt verð sem væri hærra en 100 pund á megawatt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .